En eitthvað virðist þetta vera ofsögum sagt því hersveitir þeirra eru sagðar hafa orðið fyrir miklu mannfalli í bardögum við úkraínsku varnarsveitirnar og hafi misst mörg hundruð hermenn á fyrstu þremur vikum stríðsins.
Téténsku hermennirnir komu til Úkraínu fljótlega eftir að Rússar réðust inn í landið. Þremur dögum eftir að innrásin hófst féll Magomed Tushayev, hershöfðingi, þegar hersveitir þeirra reyndu að ná Gostomelflugvellinum á sitt vald. Úkraínska leyniþjónustan segir að nokkur hundruð téténskir hermenn hafi fallið í bardögum um flugvöllinn.
Myndir voru síðan birtar af því sem virtist vera stór herflutningalest téténskra hersveita norðan við Kyiv og myndband af loftárás á lestina. Fjöldi farartækja eyðilagðist í árásinni.
Ramzan Kadyrov, forseti Téténíu, hefur þvertekið fyrir að mikið mannfall hafi orðið hjá hersveitum hans. Á Telegram skrifaði hann að tveir hermenn hefðu fallið og sex særst.
Rétt er að hafa í huga að þær tölur sem stríðsaðilar setja fram um fjölda látinna og fallinna hafa ekki verið staðfestar af óháðum aðilum.