Mirror segir að þetta komi fram í skýrslu leyniþjónustu úkraínska varnarmálaráðuneytisins. Í henni kemur að sögn fram að arftaki Pútíns verði Oleksandr Bortnikov, yfirmaður leyniþjónustunnar FSB.
Í skýrslunni kemur að sögn fram að „hópur valdamikilla“ meðlima „rússnesku elítunnar“ hafi sett saman áætlun um að losa sig við Pútín eins fljótt og hægt er og koma aftur á efnahagslegum samskiptum við Vesturlönd.
Þetta valdamikla fólk er sagt ósátt við áhrif stríðsins og refsiaðgerðir Vesturlanda.
Bortnikov er sagður hafa verið valinn sem eftirmaður Pútíns. „Það er vitað að Bortnikov og fleiri fulltrúar rússnesku elítunnar eru að íhuga ýmsar leiðir til að bola Pútín frá völdum,“ segir í skýrslunni og við þetta er síðan bætt: „Eitrun, skyndilegur sjúkdómur eða aðrar „tilviljanir“ eru ekki útilokaðar.“