fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fréttir

„Rasputitsa“ hrelldi Napóleon og Hitler – Nú er röðin komin að Pútín

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 22. mars 2022 05:32

Skriðdrekar ferðast auðveldlega á föstu undirlagi en leðjan gerir þeim erfitt fyrir. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar. Undirbúningur innrásarinnar hafði staðið lengi  yfir en vel á annað hundrað þúsund hermenn voru fluttir að úkraínsku landamærunum. Talið er að Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, hafi beðið með að gefa fyrirmæli um innrásina þar til Vetrarólympíuleikunum í Peking var lokið. Það gæti reynst dýrkeypt bið.

Með því að fresta innrásinni þar til eftir leikana sendi hann her sinn í fangið á fyrirbæri sem Napóleon og Hitler fengu báðir að kenna á og Pútín ætti að þekkja vel sem Rússi.

Þetta fyrirbæri heitir „Rasputitsa“ og það gerir vart við sig tvisvar á ári. Þegar hlýnar í veðri á vorin og frost verður að þíðu og þegar haustrigningarnar berja á Úkraínu. Þetta veldur einföldum en mjög hamlandi vanda fyrir innrásarlið: Leðju.

Hersveitir Hitlers fengu að kenna á þessu á hverjum vetri á austurvígstöðvunum í síðari heimsstyrjöldinni og herir Napóleóns lentu líka illa í þessu á sínum tíma. Þetta gerir einfaldlega að verkum að allir vegir, sem ekki eru malbikaðir, verða ófærir. Það þýðir auðvitað að mörg farartæki hersins komast ekki lönd né strönd. Skriðdrekar komast þó raunar leiðar sinnar en bara mjög hægt. Hins vegar geta vöruflutningabílar, sem flytja birgðir til skriðdrekahersveitanna, ekki komist áfram í þessu færi. Þeir þurfa að notast við malbikaða vegi. Þar með fá skriðdrekasveitirnar ekki þær birgðir sem þær þarfnast.

Rasputitsa er sérstaklega erfitt fyrirbæri á vorin. Þá bráðnar snjórinn, efsta jarðvegslagið er þurrt en það næsta er frosið eftir langan og kaldan vetur. Í Hvíta-Rússlandi, Rússlandi og Úkraínu er landslagið mjög flatt og vatn rennur ekki svo auðveldlega á brott. Þetta þýðir einfaldlega að flest ökutæki sitja föst ef reynt er að aka á þessu undirlagi.

Það að rússnesku flutningabílarnir þurfa að aka eftir malbikuðum vegum hefur gert Úkraínumönnum auðveldar fyrir með að ráðast á birgðaflutningalestirnar. Hermenn þurfa bara að koma sér fyrir við vegina og bíða eftir birgðaflutningalestum. Þeir geta síðan notað tyrkneska dróna og sérhönnuð vopn, til að vinna á brynvörn skriðdreka, frá Vesturlöndum til að granda birgðalestunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt