BBC skýrir frá þessu. Fram kemur að hugveitan segi að rússneskar hersveitir hafi hægt og bítandi náð árangri í orustunni um borgina og því megi reikna með að þær nái henni á sitt vald á næstu vikum. Í stöðuskýrslu breska varnarmálaráðuneytisins, sem var birt í morgun, kemur fram að úkraínsku varnarsveitirnar hafi fram að þessu náð að hrinda árásum Rússa á borgina sem er nær rústir einar eftir árásir Rússa.
Úkraínska leyniþjónustan segist hafa komið í veg fyrir morðtilræði við Volodymyr Zelenskyy forseta. Segir leyniþjónustan að hópur rússneskra útsendara, undir forystu leyniþjónustumanns, hafi verið handtekinn í bænum Uzjhorod sem er við landamæri Úkraínu, Slóvakíu og Ungverjalands. Dpa skýrir frá þessu.
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, staðfesti í gærkvöldi að Rússar hafi notað ofurhljóðfrá flugskeyti í árásum sínum á Úkraínu. CNN segir að hann hafi sagt að ómögulegt sé að granda slíkum flugskeytum og það sé ástæða fyrir að Rússar séu farnir að nota þau.
Volodymyr Zelensky, Úkraínuforseti, telur útilokað að hægt sé að semja um frið án þess að Úkraínumenn fundi með Vladímír Pútín Rússlandsforseta. Hann sagði jafnframt að ljóst sé að Úkraína geti ekki gengið í NATO. Hann sagðist reiðubúinn til að falla frá aðildarumsókn Úkraínu að NATO gegn því að samið verði um vopnahlé og að rússneskar hersveitir dragi sig frá Úkraínu og að öryggi Úkraínu verði tryggt.
96 ára Úkraínumaður, Borys Romanchenko, var drepinn í loftárás Rússa á Kharkiv á föstudaginn. Fjölskylda hans skýrði frá þessu að sögn BBC. Romanchenko lifði af dvöl í útrýmingarbúðum nasista í síðari heimsstyrjöldinni.