„Augu flestra beinist nú að ástandi mála í Úkraínu. Dragist stríðsástand þar á langinn má búast við auknum hörmungum og þjáningum fólksins sem þar býr. Einhvern tíma hlýtur þetta stríð, eins og öll önnur stríðsátök, að taka enda.“
Svona hefst pistill sem Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún, fræðimaður og bókahöfundur, skrifar en pistillinn birtist í Morgunblaðinu í dag.
Í pistlinum segir Gunnar að stríðinu hljóti að ljúka með samningum. „Vænlegast til árangurs er að þeim málum stýri fólk með yfirburðaþekkingu á sögunni – bakgrunni átakanna og geti skoðað málin frá sjónarhóli allra,“ segir hann en bætir svo við að hann sé á því að engin þjóð eigi rétt á því að ráðast inn í önnur lönd.
Gunnar segir þá að til séu margir Íslenskir menn sem hafa „skarpari yfirsýn og meira innsæi en allur þorri manna“. Hann vill meina að fjórir Íslendingar ættu að stjórna samingaviðræðum Úkraínu og Rússlands. „Af öllum þeim mörgu sem ég gæti nafngreint, þá vil ég nefna fjóra, sem vegna þekkingar sinnar og víðáttusýnar ættu að stjórna – allavega að koma að – samningum Rússa og Úkraínumanna, um varanlega lausn á því ástandi sem þar er nú.“
Mennirnir sem Gunnar nefnir eru Albert Jónsson, fyrrum sendiherra og sérfræðingur í utanríkis- og varnarmálum, Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og fyrrum varaþingmaður, Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti Íslands, og Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
„Þótt þessir menn hafi „víða komið við“ þá er þekking þeirra og réttsýni slík, að átakaaðilar ættu að bera gæfu til þess að samþykkja aðkomu þeirra sem tilraun til lausnar á því skelfilega ástandi sem þar er nú. Ég bið þessa fjóra menn um að ræða saman – ég biðla til þeirra áhrifamanna sem raunverulega vilja frið og farsæld þjóða og einstaklinga, að leita leiða til að koma þessum mönnum að fyrrnefndum samningamálum.“
Gunnar segir að það sé ljóst að þessir fjórir menn yrðu aldrei samþykktir af öðrum aðilanum ef þeir ættu að fara fram á vegum íslenskra stjórnvalda. „Þeir yrðu að ganga til verks á eigin vegum eða á vegum alþjóðlegra og viðurkenndra friðarsamtaka,“ segir hann.
„Mörgum mun finnast orð þessarar greinar fáránleg og fráleit. Við megum hins vegar aldrei útiloka neitt fyrirfram og að óreyndu. Allt rétthugsandi fólk hlýtur að vona að núverandi ástandi í Úkraínu ljúki, en það gerist varla öðru vísi en með samningsniðurstöðu. Því fyrr, því betra, ef við höfum velferð fólks í huga.“