Koshel Alexander Olegovich, undirofursti í rússneska hernum, hefur verið handsamaður af úkraínska hernum. Úkraínski fjölmiðillinn Ukrinform vekur athygli á handsömuninni en hermennirnir greindu sjálfir frá henni á Facebook-síðu sinni.
Í færslunni sem hermennirnir birtu er því haldið fram að Koshel sé leiðtogi sinnar deildar í rússneska hernum. „Enginn særðist af völdum árása óvinarins. Farið var með fangann í öruggt skjól,“ segja hermennirnir í færslunni.
Samkvæmt hermönnunum reyndu Rússar að bjarga undirofurstanum sínum en að það hafi ekki gengið. Þá segja þeir að ástæðan fyrir því að reynt var að bjarga honum sé sú að Koshel hafi verið í beinum og daglegum samskiptum við Mikhail Zusko, herforingja í rússneska hernum. „Nú mun Koshel gefa vitnisburð til gagnnjósnara okkar.“
Hermennirnir segja þá í færslunni að þeir hafi komið að Koshel á nærbuxunum. Þeir bæta því svo við að nærbuxurnar og sokkarnir sem Koshel klæddist þegar hann var handsamaður séu merkt Úkraínska hernum. „Sönnun þess að meðlimir rússneska hersins viti að jafnvel nærbuxur og sokkar úkraínska hersins eru betri en það sem fæst í hinum rómaða her Rússlands.“
Þá birtu hermennirnir myndir með færslunni en í þeim má sjá Koshel ásamt skírteinum hans og einkennismerki, Koshel virðist ekki vera neitt sérstaklega glaður á myndinni sem úkraínsku hermennirnir tóku af honum.
Myndirnar sem um ræðir má sjá hér fyrir neðan: