fbpx
Mánudagur 24.febrúar 2025
Fréttir

Björgvin Páll birtir átakanlegt hjálparkall fyrir systur sína sem er á geðdeild – „Tímaspursmál hvenær ég fæ símhringinguna“

Erla Hlynsdóttir
Þriðjudaginn 22. mars 2022 13:29

Björgvin Páll Gústavsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björgvin Páll Gústavsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik, kallar á hjálp fyrir systur sína sem er inni á geðdeild en útskrifast þaðan eftir örfáa daga og enginn veit hvert framhaldið verður.

„Ég get ekki sofið… get ekki sofið vegna þess að ég veit að systir mín er kominn á hræðilegan stað, stað þar sem það er einungis tímaspursmál hvenær ég fæ símhringinguna um að systir mín sé dáin úr ofneyslu eða sjálfsvígi,“ skrifar Björgvin í átakanlegri Facebookfærslu sem hann gaf DV leyfi til að birta.

Þar spyr hann hvort systir sín eigi engan séns. Hann sé búinn að hringja á allar helstu meðferðarstofnanir en alls staðar sé fullt og hvergi pláss fyrir systur hans þegar hún útskrifast af geðdeild. „Reið, þrátt fyrir að vera lyfjuð, segir hún mér að hún viti að þetta verði hennar síðasta ef að kerfið hendir henni á götuna eftir 2-3 daga. Þetta er ákall á hjálp! Þetta er ákall um breytingar.“

Björgvin Páll segir að í síðustu viku hafi þurft að endurlífga systur hans sex sinnum vegna ofneyslu og fékk hún óvænt pláss á Vogi, en labbaði þaðan út aftur í miklu ójafnvægi. Það var meðal annars vegna hvatningar frá Björgvin sem hún fór þangað inn.

Hann deilir á Facebook síðustu skilaboðunum sem hann sendi til systur sinnar áður en hún fór inn á Vog. „Tímapunktur sem ég hef beðið eftir síðan ég hélt utan um hana 7 ára gamla eftir að hafa horft uppá sjúkraflutningamenn bera mömmu okkar út í sjúkrabíl eftir eina af hennar mörgu sjálfsvígstilraunum. Ég lofaði þér á þessum tímapunkti að passa þig og að ég skildi aldrei fara frá þér. Loforð sem ég stóð ekki við. Loforð sem ég gat ekki staðið við því ég var bara barn sjálfur. Barn eins og þú sem fékk ekki bestu spilin í hendurnar, barn sem kerfið brást og barn sem fékk aldrei þá hlýju og umhyggju sem börn eins og við þurfum á að halda. Ég náði að spila þokkalega úr mínum spilum, en bara vegna heppni,“ skrifar Björgvin.

Hann segist hafa verið heppinn að finna sína útgönguleið í gegn um íþróttir og að hann dæmi systur sína ekki á neinn hátt fyrir þá leið sem hún fór.

„Ég dæmi þig ekki fyrir neitt sem þú hefur gert, öll vandræðin og öll neyslan. Undirheimarnir og fíkniefnin eru flóttinn frá sársaukanum. Staðir þar sem að enginn dæmir þig og allir eru jafnir, allir fá að tilheyra. Þú ert ástæðan fyrir því að ég berst fyrir því á hverjum degi að verða betri pabbi í dag en ég var í gær. Ég vil ekki bregðast mínum börnum eins og okkur var brugðist. Okkar saga er ástæðan fyrir því að ég er að berjast í því að vera góð fyrirmynd og hjálpa öllum að líða betur. Gefa þeim sem fá ekki bestu spilin á hendurnar von um að þetta verði allt í lagi. Ég ætlaði bara að skrifa þetta í símann til þess að ná að sofna en langar að senda þér þetta í von um að þú sért enn á stað þar sem þú getur meðtekið skilaboðin. Stað þar sem þú nærð að vekja upp tilfinningar. Stað þar sem þú finnur það innst í hjartanum hvað ég elska þig fokking mikið!,“ skrifar Björgvin.

Færsluna hans má sjá hér í heild sinni en henni lýkur á orðum hans til systur sinnar: „Ég er hér ef þú þarfnast mín.“

Uppfært kl 13:46: Björgvin bætir síðan kommenti við færsluna sem hann óskaði sérstaklega eftir að yrði með í fréttinni:

„Áður en ykkur dettur í hug að dæma mömmu mína útfrá þeirri stöðuuppfærslu sem ég setti inn síðast þá langar mig að minna ykkur á að það eru allir einhvernvegin útaf einhverju. Mamma mín hefur alltaf gert sitt besta, en það besta var hreinlega ekki nóg þar sem að hún fékk heldur ekki bestu spilin á hendurnar og ef að kerfið hefur brugðist einhverjum þá er það henni. Saga mömmu er ótæmandi áfallasaga sem fáir geta ímyndað sér hvernig lítur út en ég talaði aðeins um hennar sögu í bókinni minni “Það tók mig því miður æði langan tíma að fyrirgefa henni sjálfsvígstilraunirnar og með hverri tilraun fjarlægðumst við hvort annað frekar. Það var ekki fyrr en löngu síðar að ég náði að skilja hennar sögu betur. Mamma mín hefur, fyrir utan að eiga við þunglyndi, kvíða, félagsfælni og alkóhólisma að stríða, gengið í gegnum það að missa einn unnusta í vinnuslysi og annan úr krabbameini og lífið hefur á köflum reynst henni afar erfitt.”. Að auki er mamma búinn að vera í fjárhagsvandræðum frá því ég kom í heiminn, reynt að vinna sig út úr þeim með því að leggja alltof mikið sig, keyrt sig oft í kaf, sett sig í 2. sæti og á sama tíma verið að reyna að ná utan um lífið og fjölskylduna sína. Ég kenni mömmu ekki um neitt. Ég er bara þakklátur fyrir að mamma sé á lífi og sé ennþá til staðar fyrir barnabörnin sín. Ég trúi því líka að með því að tala um þessi mál öll svona opinskátt sé ég að hjálpa öðrum í svipaðri stöðu og eins að hjálpa mömmu með að díla við fortíðina. Ég er löngu búinn að fyrirgefa henni fyrir sín mistök. Án mömmu og án hennar sögu væri ég bara einhver handboltakall sem væri löngu hættur að reyna að berjast fyrir því að bæta þetta kerfi sem við lifum öll í.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslendingar lýsa hvernig þeir svindluðu á prófi – „Að sitja fremst þýddi líka að kennarinn grunaði mig aldrei“

Íslendingar lýsa hvernig þeir svindluðu á prófi – „Að sitja fremst þýddi líka að kennarinn grunaði mig aldrei“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dóri DNA á tímamótum – „Það vorkennir manni enginn“

Dóri DNA á tímamótum – „Það vorkennir manni enginn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjörugar athugasemdir eftir kvörtun miðborgarbúa vegna hávaða, hrópa og úrgangslosunar – „Costco er bæði með partýbleyjur og poka“

Fjörugar athugasemdir eftir kvörtun miðborgarbúa vegna hávaða, hrópa og úrgangslosunar – „Costco er bæði með partýbleyjur og poka“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Börnum í Breiðholtsskóla stíað í sundur – „Reyndur skólamaður“ ráðinn til að taka á ástandinu

Börnum í Breiðholtsskóla stíað í sundur – „Reyndur skólamaður“ ráðinn til að taka á ástandinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lokaði augunum og keyrði á hringtorg

Lokaði augunum og keyrði á hringtorg
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sambýlismaður yfirmanns sorpmála var ráðinn sem ráðgjafi við breytingar á sorphirðukerfi Akureyrar – Sviðsstjóri játar mistök

Sambýlismaður yfirmanns sorpmála var ráðinn sem ráðgjafi við breytingar á sorphirðukerfi Akureyrar – Sviðsstjóri játar mistök