Alexandr Lukasjenko, forseti Hvíta-Rússlands, er náinn bandamaður Vladímír Pútín, Rússlandsforseta, eða eiginlega öllu heldur strengjabrúða hans. Hann situr í embætti í skjóli Pútín en Lukasjenko hefur haldið um stjórnvölinn í Hvíta-Rússlandi í 28 ár og er stundum nefndur síðasti evrópski einræðisherrann.
Hvíta-Rússland á 1.100 kílómetra landamæri að Úkraínu í norðri og hefur landið gegnt stóru hlutverki í undirbúningi rússneska hersins fyrir innrásina í Úkraínu og rússneskum eldflaugum hefur verið skotið þaðan á Úkraínu. Nú óttast Úkraínumenn að Lukasjenko ætli að ganga skrefinu lengra og senda her sinn inn í Úkraínu til að leggja Rússum lið en þeir hafa átt í miklum erfiðleikum í hernaði sínum.
Hvítrússar hafa aðstoðað Rússa með því að taka við föllnum og særðum rússneskum hermönnum og járnbrautalestir í landinu hafa verið notaðar til að flytja hersveitir og vistir. Lukasjenko lét einnig nýlega breyta stjórnarskrá landsins og heimilaði þar með Rússum að koma kjarnorkuvopnum fyrir í landinu.
Vadym Denysenki, ráðgjafi úkraínska innanríkisráðherrans, sagði að í ljósi brottflutnings hvítrússnesku stjórnarerindrekanna telji hann 60% líkur á að Hvítrússar muni ráðast á Úkraínu. Hann sagði Úkraínumenn viðbúna því að Hvítrússar ráðist á þá en það sé ekki eitthvað sem þeir hafi þörf fyrir núna.
Úkraínski herinn skýrði frá því á Twitter í gær að nýjar upplýsingar bendi til að hvítrússneskar hersveitir séu að undirbúa sig undir „beina innrás“ í vestanverða Úkraínu.
Myndbönd og myndir, sem hafa verið birt á samfélagsmiðlum síðustu daga, benda til að Hvítrússar hafi safnað miklu herliði við úkraínsku landamærin síðustu daga. Sérstaklega við borgina Brest sem er nærri pólsku landamærunum og þeim svæðum í vesturhluta Úkraínu þar sem vopnasendingar og neyðarhjálp frá Vesturlöndum er veitt viðtaka.