Það er hægt að öðlast smá innsýn í viðhorf almennings á tveimur YouTube-rásum en YouTube er enn opið fyrir Rússa.
Á annarri rásinni, sem heitir 1420, sýnir 21 árs maður, Daniil, upptökur af ferðum sínum um Moskvu þar sem hann ræðir við vegfarendur um nýjustu fréttir. Hann birtir mörg myndbönd og margvíslegar skoðanir almennings koma fram í þeim.
„Ég held að stríðið hafi hafist á milli ríkisstjórna, ekki á milli fólks.“
Hvað eigum við að gera?“
„Þú getur ekki hjálpað með myndböndunum þínum. Við verðum að mótmæla á götum úti.“
„Þetta er vont, þetta er vont. Það er það eina sem ég get sagt.“
„Ég skil ekki af hverju þetta gerist á 21. öldinni . . . við, venjulegt fólk, viljum alls ekki stríð. Við viljum frið, vináttu og ást.“
Er meðal þess sem viðmælendur hans segja.
Daniil reynir að halda eigin skoðunum á stríðinu frá skjánum og segir að hjá 1420 reyni fólk að hafa engar skoðanir á svörunum því annars geti það haft áhrif á myndböndin og því sé betra að sleppa því. Í tölvupósti til The Independent sagði Danill að markmið hans sé að sýna heiminum Rússa frá öllum sjónarhornum.
Hann sagði að þeir sem þora að svara spurningum hans séu aðeins lítið brot af þeim sem hann ræðir við. Hann nefndi sem dæmi að í nýlegu myndbandi ræði hann við 23 vegfarendur en 123 hafi neitað að ræða við hann.
Fólk er hrætt við yfirvöld og margir hrista bara höfuðið þegar hann spyr út í stríðið og ganga á brott án þess að segja neitt.
„Ég held að ég geti ekki sagt neitt út af vinnunni minni,“ sagði ein ung kona. Önnur sagðist kjósa að hugsa ekki um stríðið.
En aðrir virðast taka mark á því sem ráðamenn í Kreml segja: „Hvaða stríð?“ sagði einn.