fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

„Rússarnir voru að elta okkur uppi. Þeir höfðu lista yfir nöfn, þeirra á meðal okkar, og þeir voru að nálgast“ 

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 21. mars 2022 15:30

Ein myndanna frá rústum fæðingardeildarinnar. Konan á myndinni lést ásamt ófæddu barni sínu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mstyslav Cherniv og kollegi hans, Evgeniy Maloletka, voru seinustu blaðamennirnir í umsetnu borginni Maríupol í Úkraínu. Þeim var bjargað þaðan út þann 15. mars og hefur Cherniv nú deilt sláandi frásögn af reynslu þeirra. Þeir starfa fyrir miðilinn AP þar sem Cherniv deilir frásögn sinni.

„Rússarnir voru að elta okkur uppi. Þeir höfðu lista yfir nöfn, þeirra á meðal okkar, og þeir voru að nálgast.“ 

Dulbjuggu sig sem heilbrigðisstarfsmenn

Cherniv segir að læknar á sjúkrahúsinu sem þeir voru að vinna fréttir á hafi fært þeim hvít spítalaföt til að nota sem dulargervi.

„Skyndilega í morgunsárið ruddust um tíu hermenn inn: „Hvar eru blaðamennirnir í guðanna bænum.“ 

Cherniv var ekki viss hvort að um úkraínska hermenn eða rússneska væri að ræða. Mennirnir báru auðkenni, blá armbönd, sem gáfu til kynna að um Úkraínumenn væri að ræða, en það veitti þó enga tryggingu enda möguleiki að þar væru Rússar að villa á sér heimildir.

„Ég steig fram og kynnti mig. „Við erum komnir til að fylgja ykkur út,“ sögðu þeir.“ 

Hermönnunum hafði verið skipað að hjálpa blaðamönnunum að yfirgefa borgina, enda voru Rússar að leita þá uppi.

„Við hlupum út á götu og yfirgáfum læknanna sem höfðu skotið yfir okkur skjólshúsi, þunguðu konurnar sem höfðu orðið fyrir flugskeytum og fólkinu sem svaf á göngunum því þau höfðu engan annan stað. Mér leið hryllilega að skilja þau öll eftir.“ 

Allt sem þið hafið lagt á ykkur verður til einskis

Fengu þeir skýringu á hvers vegna það ætti að koma þeim út úr borginni. Lögreglumaður tilkynnti þeim að Rússar ætluðu að reyna að draga úr trúverðugleika frétta þeirra.

„Ef þeir ná ykkur munu þeir neyða ykkur fyrir framan myndavél og láta ykkur segja að allt sem þið hafið tekið upp sé lygi,“ sagði hann. „Allt sem þið hafið lagt á ykkur og allt sem þið hafið gert í Maríupol verður þá til einskis.“ 

Cherniv segir að hann og kollegi hans hafi verið seinustu blaðamennirnir eftir í borginni, aðrir væru farnir. Borgin væri einangruð frá umheiminum og þar var búið sprengja í sundur rafmagnslínur, ekkert aðgengi að vatni, matarbirgðir á þrotum og nánast engin leið til að ná sambandi við umheiminn eftir að fjarskiptastöðvar voru sprengdar, sem og sjónvarps- og útvarpsturnar.

„Að klippa á upplýsingaflæðið í umsátri þjónar tveimur markmiðum.

Ringulreið er sú fyrsta. Fólkið veit ekki hvað er í gangi og þau verða hrædd. Fyrst skildi ég ekki hvers vegna Maríupol liðaðist í sundur svona hratt. Nú veit ég að það var út af samskiptaleysi. 

Refsileysi er það seinna. Þegar engar upplýsingar komast út úr borginni, engar myndir af rústum bygginga og deyjandi börnum, getur rússneska herliðið gert það sem þeim sýnist. Án okkar væri ekkert. 

Þess vegna tókum við þessa áhættu til að geta sýnt heiminum það sem við sáum, og það gerði Rússana nægilega reiða til að elta okkur uppi. 

Ég hef aldrei áður upplifað jafn sterkt hvers vegna það er nauðsynlegt að rjúfa þögnina.“

Enginn veit hvað er að gerast í borginni okkar

Cherniv segir að aðstæður hafi fljótt orðið hrottalegar í borginni og hann hafi séð fjölda manns, og barna, láta lífið. Hins vegar fengu þeir mikla og góða hjálp við að koma upplýsingum út úr borginni, enda þótti íbúum Maríupol mikilvægt að heimurinn vissi hvað væri þar að gerast.

„Læknarnir grátbáðu okkur að taka upp fjölskyldur sem komu með látna ástvini og særða á sjúkrahúsið og leyfðu okkur að nota rafstöðvar sínar, sem voru að þrotum komnar, til að hlaða myndavélarnar. Enginn veit hvað er að gerast í borginni okkar, sögðu þeir.“ 

Enn hafi verið viss staður í borginni þar sem hægt var að ná netsambandi og lögðu Cherniv og Maloletka sig í mikla hættu til að ná að senda myndir og myndskeið út úr borginni.

Þegar sú tenging rofnaði notuðu þeir gervihnattasíma, en til að geta notað hann þurftu þeir að fara út á opið svæði þar sem hættan var mikil.

„Ég settist niður, reyndi að láta fara lítið fyrir mér til að reyna að ná tengingu.“ 

Borgarbúar hafi leitað til þeirra eftir upplýsingum frá umheiminum og grátbáðu þá um að taka af sér myndir til að fjölskylda og vinir vissu að þau væru enn á lífi.

Þetta mun breyta gangi stríðsins

Það voru þeir Cherniv og Maloletka sem fóru að rústum fæðingardeildarinnar til að taka myndir og skrifa fréttir um ástandið.

„Rafhlöður okkar voru nánast tómar og við höfðum enga nettengingu til að senda myndir. Útgöngubannið var að detta á. Lögreglumaður heyrði okkur ræða um hvernig við kæmum fréttunum af árásinni út.“ 

„Þetta mun breyta gangi stríðsins,“ sagði hann. Hann fór með okkur á stað þar sem var rafmagn og nettenging. 

Við höfðum tekið upp svo mikið af látnu fólki og látnum börnum, endalaust. Ég skildi ekki hvers vegna hann taldi að fleiri andlát myndu breyta nokkru. 

Ég hafði rangt fyrir mér.“ 

Áróðursherferð Rússa

Árásin á fæðingardeildina vakti heimsathygli og var víða fordæmd sem alvarlegur stríðsglæpur. Rússar hafa þó haldið því fram að fæðingardeildin hafi verið yfirgefin og að myndirnar frá rústunum, þar sem sjá má þungaðar konur á sjúkrabörum, séu settar á svið.

„Við vissum ekkert um áróðursherferð Rússa til að rengja vinnu okkar. 

Rússneska sendiráðið í London birti tvö tíst þar sem myndir AP fréttastofunnar voru kallaðar falskar og því haldið fram að þungaða konan væri leikkona. Rússneski sendiherrann hélt uppi myndunum á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og endurtók lygar um árásina á fæðingardeildina.“ 

Aðeins hafi verið ein útvarpsstöð sem íbúar í Maríupol gátu hlustað á. Sú stöð flutti aðeins rússneskan áróður.

„Það var ekkert úkraínskt útvarp eða sjónvarp í Maríupol. Eina útvarpsstöðin sem var hægt að hlusta á flutti rússneskar lygar – að Úkraínumenn væru með Maríupol í gíslingu, að skjóta á byggingar og þróa efnavopn. Áróðurinn var svo mikill að sumir sem við ræddum við voru farnir að trúa því þrátt fyrir að hafa séð hið rétta með eigin augum. 

Skilaboðin voru sífellt endurtekin, að sovéskum stíl. Maríupol er umkringd. Leggið niður vopn.“ 

Myndirnar kölluðu á viðbrögð rússneskra yfirvalda

Þegar þeir náðu stuttu símasambandi við yfirmenn sína voru þeir beðnir að leita þunguðu konurnar uppi til að sanna tilvist þeirra.

„Þann 11 mars í stuttu símtali spurði ritstjórinn okkar hvort við gætum haft uppi á konunum sem lifðu af árásina á fæðingardeildina til að sanna tilvist þeirra. Ég gerði mér grein fyrir að myndirnar hefðu verið nægilega sláandi til að kalla á viðbrögð frá rússneskum yfirvöldum. 

Við fundum þær á sjúkrahúsi nálægt víglínunni, sumar með börn og aðrar með hríðar. Við fréttum einnig að ein kona hefði misst barn sitt og látist í kjölfarið.“ 

Þeir áttu svo ekki eftir að yfirgefa sjúkrahúsið, en það hafi verið umsetið og leiðin aftur að bifreið þeirra var vöktuð af rússneskri leyniskyttu.

„Við vorum umkringd. Tugir lækna, hundruð sjúklinga og við.“

Þeir voru svo enn á sjúkrahúsinu þegar þeim var bjargað.

„Ég var hermönnunum gífurlega þakklátur, en ég var einnig dofinn. Og skammaðist mín fyrir að vera að fara.“

Þeim var bjargað úr borginni þann 15. mars en þann dag komust um 30.000 manns út, svo margir að rússneskir hermenn náðu ekki að kanna vel hvern bíl og fundu því ekki blaðamennina tvo. Alls þurftu þeir að fara í gegnum 15 rússneskar varðstöðvar

„Við vorum seinustu blaðamennirnir í Maríupol. Nú eru engir.“ 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja
Fréttir
Í gær

Fjórtán ára drengur stórslasaður eftir að hafa tekið upp flugeld – „Af hverju heldur fólk að einhverjir aðrir gangi frá?“

Fjórtán ára drengur stórslasaður eftir að hafa tekið upp flugeld – „Af hverju heldur fólk að einhverjir aðrir gangi frá?“
Fréttir
Í gær

Anna greindist með krabbamein og þurfti í bráðaaðgerð – „Meinið er búið að dreifa sér“

Anna greindist með krabbamein og þurfti í bráðaaðgerð – „Meinið er búið að dreifa sér“
Fréttir
Í gær

Þrýst á Sigurð Inga að axla ábyrgð eftir slakan árangur Framsóknarflokksins

Þrýst á Sigurð Inga að axla ábyrgð eftir slakan árangur Framsóknarflokksins
Fréttir
Í gær

Billy Crystal missti heimili sitt til 46 ára – Paris Hilton horfði á húsið sitt brenna

Billy Crystal missti heimili sitt til 46 ára – Paris Hilton horfði á húsið sitt brenna