Mæðgurnar dvelja nú á Okhmatdyt barnaspítalanum í Kyiv.
Á myndbandsupptöku, þar sem rætt er við Olgu, segist hún hafa vaknað til að gefa dóttur sinni brjóst. Hún hafi verið búin að vefja hana inn í teppi þegar Rússar gerðu sprengjuárás. „Það er það sem varð henni til lífs. Ég náði að pakka henni inn rétt áður. Síðan kom Dmytro og hlífði okkur líka,“ sagði hún.
„Ég særðist á höfði og blóðið streymdi. Það streymdi niður á barnið. Ég skildi þetta ekki, ég hélt að þetta væri blóð úr henni,“ sagði hún. Dmytro tók þá við stúlkunni og Olga öskraði að hún hefði skorist en Dmytro gat róað hana og sagt henni að svo væri ekki, blóðið væri úr henni sjálfri.
Olga skarst illa höfði og víða á líkamanum en dóttir hennar slapp með minniháttar rispur og marbletti.
„Það eina sem við getum gert er að vera jákvæð, bara trúa því að þetta hafi verið það versta og hryllilegasta sem gat komið fyrir okkur,“ sagði Dmytro.
Myndir af Olgu með Victora í fangi sér hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum að undanförnu. Olga er með greinilega áverka á myndunum sem þykja sýna vel þann hrylling og kostnað sem óbreyttir borgarar greiða fyrir innrás Rússa og árásir þeirra á óbreytta borgara.