Bardagakappinn Gunnar Nelson sneri aftur í hringinn eftir um tveggja ára fjarveru á UFC-bardagakvöldi í London. Andstæðingur Gunnars var Japaninn Takashi Sato sem stökk inn í bardagann sem varamaður eftir að Brasilíumaðurinn Claudio Silva meiddist. Sato er þó enginn aukvisi og hafði verið á mikilli siglingu fram að bardaga kvöldsins.
Hann komst þó ekki langt gegn Íslendingnum sem hafði talsverða yfirburði í viðureigninni. Sato byrjaði af krafti en í lok fyrstu lotu náði Gunnar Japanum í gólfið og lét hann finna til tevatnsins án þess að ná að klára bardagann. Klár sigur í fyrstu lotu.
Í annarri lotunni var í raun það sama upp á tengingnum. Sato byrjaði betur en von var á en Gunnar náði honum svo í gólfið og þjarmaði að honum án þess að ná að knýja fram sigur. 2-0 fyrir Gunnari eftir tvær lotur.
Í lokalotunni náði Gunnar Sato í gólfið í þriðja sinn og nú þegar nægur tími var til stefnu. Japaninn náði þó að verjast býsna vel en átti sér aldrei viðreisnar von í lotunni sem Gunnar vann með miklum yfirburðum. 3-0 sigur í lotum talið og því Gunnar öruggur sigurvegari bardagans. 30-26 hjá öllum dómurum.