fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fréttir

Segir að þetta hafi komið illa við Pútín tilfinningalega – „Hann átti ekki von á neinu þessu líkt“

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 18. mars 2022 06:49

Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú eru rétt rúmar þrjár vikur síðan Rússar réðust inn í Úkraínu. Ætlun þeirra var að vinna skjótan sigur en það hefur ekki tekist og raunar hefur hernaður þeirra ekki skilað miklum landvinningum enn sem komið. Úkraínskar varnarsveitir hafa barist af hörku og mannfall rússneska hersins er mikið en að mati bandarískra leyniþjónustustofnana hafa um 5% af innrásarliðinu fallið í bardögum eða rúmlega 7.000 hermenn og er það talið varfærið mat. Að auki hafa líklega á þriðja tug þúsunda hermanna særst.

Á miðvikudaginn var sjónvarpað frá ríkisstjórnarfundi þar sem Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, var í fyrirsvari. Hann sagði að innrásin gengi nákvæmlega eftir áætlun og að markmiðum rússneska hersins verði náð að fullu á réttum tíma. En hann var einnig harðorður og sagði að andstæðingar Rússa, Vesturlönd, muni eflaust treysta á „fimmtu herdeildina“, föðurlandssvikara. Fimmta herdeildin er hugtak notað yfir þá sem vinna gegn fósturjörðinni.

Með orðum sínum er hann að reyna að tryggja ró innanlands en vaxandi andstöðu við stríðsreksturinn hefur orðið vart þrátt fyrir að Pútín og stjórn hans taki þá engum vettlingatökum sem mótmæla stríðsrekstrinum. Pútín er eiginlega farinn að hljóma eins og hann hafi setið lengi í umsetnu virki og virðist sjá skrattann í hverju horni í líki Vesturlanda.

„Sameiginlega reyna Vesturlönd að kljúfa samfélag okkar með því að giska á mannfall á vígvellinum, áhrif efnahagslegra refsiaðgerða á samfélagið og með ögrandi árekstrum í rússnesku samfélagi. Með því að nota fimmtu herdeildina er ætlunin að ná markmiðunum. Það er aðeins eitt markmið, það hef ég þegar nefnt, að eyðileggja Rússland,“ sagði Pútín við ráðherra sína.

Þetta orðalag hefur hrollvekjandi tengingu við rússneska sögu að mati margra sérfræðinga. Sebastian Sebag Montefiore, rithöfundur sem sérhæfir sig í Stalínstímanum, skrifaði á Twitter: „Föðurlandssvikarar. Ógeð. Hreinsanir. Óvinir. Ræða Pútín og orðaval er frá 1937.“ Þar vísaði hann til þess að það ár hóf Jósef Stalín hrikalegar „hreinsanir“ í rússnesku samfélagi þar sem mörg hundruð þúsund manns urðu þeim að bráð.

Pútín beindi þessum orðum sínum væntanlega til nokkurra hópa. Til landa sinna sem hann vildi gera ljóst að allri andstöðu verði mætt af miklu miskunnarleysi. Vesturlöndum og Úkraínu sendi hann einnig þau skilaboð að Rússar hafi ekki í hyggju að gefast upp og að Pútín sé reiðubúinn til að ganga mjög langt til að takmarka stuðning Vesturlanda við Úkraínu.

Tatjana Stanovaja, forstjóri ráðgjafarstofunnar R.Politik í Moskvu, sagði á Telegram: „Það er ekki lengur neinn vafi á að refsiaðgerðirnar, eða öllu heldur umfang þeirra, komu illa við Pútín tilfinningalega. Hann átti ekki von á neinu þessu líkt.“

Þessi ummæli hennar þýða að sameinuð afstaða Vesturlanda gegn innrásinni í Úkraínu hafi komið Pútín jafn mikið á óvart og slælegur árangur hersveita hans á vígvellinum.

Stanovaja sagði einnig að nú hafi aðalhlutverkið „fasistar“ færst frá úkraínskum stjórnmálamönnum til valdhafa á Vesturlöndum í huga Pútín.

Ólíklegt er að Pútín hafi mikið að óttast vegna almennings í Rússlandi sem er deyfður með miklum áróðri ríkisfjölmiðlanna og hefur um nóg að hugsa um að komast í gegnum hversdaginn í skugga refsiaðgerða, óðaverðbólgu og verðlausrar rúblu. En það eru þó hættumerki yfirvofandi meðal millistéttarinnar í milljónaborgum landsins. Hún verður fyrir miklum áhrifum af refsiaðgerðunum og hefur engan áhuga á að færast aftur á sama stig og var á Sovéttímanum. En til skamms tíma litið er hættan á óróleika í Rússlandi ekki svo mikil að hún hafi áhrif á stríðsreksturinn nema hermenn rísi upp og neiti að berjast en fregnir berast af að það hafi nú þegar gerst í Úkraínu og ef það færist í vöxt er rússneski herinn í miklum vanda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Foreldrar leikskólabarna fagna áfangasigri – Eru afar ósátt við dómsmálaráðherra

Foreldrar leikskólabarna fagna áfangasigri – Eru afar ósátt við dómsmálaráðherra
Fréttir
Í gær

Dómur mildaður yfir Henry Fleischer fyrir að smygla gífurlegu magni af fíkniefnum með skútu

Dómur mildaður yfir Henry Fleischer fyrir að smygla gífurlegu magni af fíkniefnum með skútu
Fréttir
Í gær

Jörgen segir að nauðganir séu allt að því refsilausar – „Dómskerfið undir leiðsögn Al­þing­is stendur sig afleitlega“

Jörgen segir að nauðganir séu allt að því refsilausar – „Dómskerfið undir leiðsögn Al­þing­is stendur sig afleitlega“
Fréttir
Í gær

27 faldur hagnaður á einbýlishúsi unga öryrkjans – „Eitt skýrasta dæmi óréttlætis sem hægt er að hugsa sér“

27 faldur hagnaður á einbýlishúsi unga öryrkjans – „Eitt skýrasta dæmi óréttlætis sem hægt er að hugsa sér“
Fréttir
Í gær

Smjörþjófnaður eykst í Rússlandi – Er merki um undirliggjandi vanda

Smjörþjófnaður eykst í Rússlandi – Er merki um undirliggjandi vanda
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristrún bregst við bloggskrifum Þórðar Snæs – „Mér leið eins og ég hefði verið kýld í magann“

Kristrún bregst við bloggskrifum Þórðar Snæs – „Mér leið eins og ég hefði verið kýld í magann“