Kristjón Kormákur Guðjónsson, fjölmiðlamaður og ritstjóri 24.is játaði nýlega að hafa brotist inn á skrifstofu Mannlífs og inn í bíl ritstjóra miðilsins, Reynis Traustasonar. Hann steig fram í hlaðvarpi Reynis þann 4. mars þar sem hann fór yfir málið.
Þar kom fram að auðmaðurinn Róbert Wessman hafi tekið þátt í að fjármagna miðil Kristjóns, 24.is, en tók Kristjón skýrt fram að innbrotin hefðu ekki verið að undirlagi Róberts heldur hafi Kristjón ákveðið af sjálfsdáðum að fremja brotin.
Kristjón fer nánar yfir málið í nýjasta helgarblaði Mannlífs, en þar segist hann hafa fengið greiðslur frá Róberti, morguninn eftir innbrotið og af frásögn hans má telja líklegt að Róberti Wessman hafi verið fullkunnugt um hver bæri ábyrgð á innbrotinu er hann lét frá sér yfirlýsingu þar sem hann hélt öðrum fram.
Kristjón segir:
„Um morguninn [daginn eftir innbrotið: innskot blm] var ég staddur uppi í Smáralind. Þá fékk ég símtal frá Róberti Wessman. Við höfðum rætt stutt saman fyrr um morguninn og ég greint frá því að ég hefði tölvu Reynis undir höndunum, án þess að fara í saumana á atburðarásinni. hann var hissa en ánægður og spenntur. Ég bað hann um greiðslu sem hann varð fúslega við og lagði inn 500 þúsund krónur á reikning fyrirtækisins.“
Þá hafi Róbert ekki vitað hvaða aðferðum Kristjón beitti til að komast yfir tölvuna. Það hafi hann þó vitað í seinni símtalinu og verið mjög brugðið.
„Ég sagði að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur, hann hefði ekki gert neitt rangt og ekki komið að þessu með neinum hætti. Þetta væri hefnd fyrir það sem hefði verið gert á minn hlut. Róbert tjáði mér að það sem ég hefði gert væri lögbrot og bætti við að hann hefði ekki undir nokkru kringumstæðum samþykkt „þetta“. Hann spurði hvort það væri hætta á að upp kæmist að ég hefði verið að verki.“
Kristjón fullvissaði Róbert um að svo væri ekki, en spurði þó hvort Róbert gæti lagt inn á hann fyrir nýjum símum. Lét Róbert þá leggja 500 þúsund krónur til viðbótar inn á reikning Kristjóns.
„Róbert sagði að lokum eftir að ég hafði fullvissað hann um að ekki væri hægt að sanna innbrotið á mig: „Farðu varlega, Kristjón.“
Engu að síður varð Róbert fljótlega bendlaður við innbrotið, þá einkum í umfjöllun Mannlífs og í viðtölum annarra miðla við Reyni Traustason. Sjálfur steig Róbert fram og þverneitaði ábyrgð. Birti hann yfirlýsingu þar sem hann sagðist vona að lögreglan tæki fast á málinu og hefðu upp á þeim sem bæri þar ábyrgð, en samkvæmt frásögn Kristjóns vissi Róbert á þessum tíma hver gerandinn var.
Eftir að Kristjón steig fram í hlaðvarpi Reynis Traustasonar og játaði á sig sakir sendi Róbert frá sér aðra yfirlýsingu sem var birt hjá mbl.is þar sem hann fagnaði því að botn væri kominn í málið og sagði Kristjón aldrei hafa játað innbrotið við sig. Þar sagði Róbert:
„Kristjón Kormákur játaði aldrei innbrot við mig. Hefði hann gert það hefði ég að sjálfsögðu tilkynnt það til lögreglu. Það var ekki fyrr en nú á föstudag sem ég eins og annað fólk heyrði sögu hans.“
Róbert segir að Kristjón hafi verið fenginn til að sinna ráðgjafastörfum fyrir lögmannsstofuna Lögsögu en sú stofa hafi svo aftur sinnt ýmsum verkefnum fyrir Róbert, meðal annars tengd fjölmiðlum.
Mannlíf leitaði svara frá lögmanni Lögsögu um greiðslur til Kristjóns og hafi fengið þau svör að engar greiðslur hafi verið greiddar síðan í september á síðasta ári. Með frétt Mannlífs í dag má finna kvittun fyrir greiðslu frá 21. janúar, daginn eftir innbrotið.
Yfirlýsing Ólafs Kristinssonar, lögmanns Lögsögu, fylgdi einnig frétt Mannlífs en yfirlýsingin er eftirfarandi:
„Kristjón Kormákur Guðjónsson var að vinna að ákveðnum rit- og markaðsverkefnum fyrir Lögsögu lögmannsstofu. Lögsaga undirritaði samning við hann þann 25. júní 2021 og var samningurinn til sex mánaða. Að loknum sex mánuðum hafði Kristján Kormákur ekki skilað þeim ritverkefnum sem hann hafði verið ráðinn til að sinna og rann samningurinn út í nóvemberlok 2021. Í lok desember hafði Kristjón Kormákur samband aftur og sagðist vera við það að ljúka ritverki sínu en vantaði smá fjárhæð til að klára verkið og Lögsaga greiddi einn reikning frá honum í desember. Þann 19. janúar hefur Kristjón Kormákur samband og segir ritverkinu lokið. Vildi hann því fá greiddar 2 milljónir króna til að greiða starfsmönnum sínum laun. Þetta staðfesta tölvupósts- og sms-samskipti. Lögsaga greiddi því Kristjóni Kormáki þessar tvær milljónir í þremur færslum, eina milljón þann 20. janúar og 2×500.000 kr þann 21. janúar. Þá greiddi Lögsaga Kristjóni Kormáki 900.000 kr í febrúar af 1.500.000 króna reikningi fyrir skýrslu sem hann ætlaði að skila inn en gerði ekki. Greiðslurnar tengdust á engan hátt Mannlífi, ritstjóra Mannlífs, eignaspjöllum eða lögbrotum af neinu tagi. Að auki lánaði undirritaður Kristjóni Kormáki persónulega smá upphæð þar sem hann var auralaus í útlöndum.“