Ísland er þriðja hamingjusamasta ríki heims samkvæmt World Happiness Report. Í fyrra var Ísland í öðru sæti og því fórum við niður um eitt sæti milli ára. Árið þar á undan var Ísland í fjórða sæti.
Hinum norðurlöndunum gekk vel eins og undanfarin ár. Finnland situr enn og aftur í efsta sæti lsitans en þetta er í fimmta árið í röð sem Finnland hreppir það sæti. Danmörk vermir annað sætið en Svíþjóð og Noregur eru í sjöunda og áttunda sæti.
Þá er Sviss í fjórða sæti, Holland í því fimmta og Lúxemborg í því sjötta. Ísrael situr í níunda sæti listans og Nýja Sjáland er í því tíunda.
Þetta er í 10. skiptið sem þessi svokallaða hamingjuskýrsla er gefin út. Gögnunum fyrir hana er safnað með könnun sem framkvæmd er á heimsvísu af Gallup. Þá er einnig tekið mið af landsframleiðslu þjóðar, lífslíkum, frelsi og spillingu.
John Helliwell, einn af þremur fyrstu ritstjórum skýrslunnar, segir að það hafi komið sér á óvart hvað velvild jókst mikið í heimsfaraldrinum. „Það kom mjög á óvart að á heimsvísu hafi verið mjög stórar jákvæðar breytingar í þremur birtingarmyndum velvildar,“ segir hann. Þessar þrjár birtingarmyndir sem hann talar um eru að gefa til góðgerðarmála, hjálpa ókunnugum og sjálfboðastarf.