fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
FréttirMatur

Hildur Rut býður upp á helgarmatseðilinn og toppar hann með suðrænum kokteil

Sjöfn Þórðardóttir
Föstudaginn 18. mars 2022 18:12

Hildur Rut gefur er lesendum uppskriftir af forrétti, tveimur aðalréttum, tveimur eftirréttum og uppskrift af dýrindis sunnudagsbakkelsi. MYND ANTON BRINK.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heiðurinn af helgarmatseðlinum á matarvef DV.is þessa helgina á Hildur Rut Ingimarsdóttir, sem er einn af okkar vinsælu matar- og sælkerabloggurum. Hildur heldur úti bloggi á Trendnet lífsstílssíðunni. Hildur nýtur sín í eldhúsinu og hefur mikla ástríðu fyrir því að matreiða og baka dýrindis kræsingar. Einnig finnst henni ómissandi eiga skemmtilegar samverustundir með vinum og vandamönnum og snæða ljúffengan mat.

Þegar við leituðum til Hildar með helgarmatseðilinn tók hún erindinu fagnandi og var ekki lengi að finna til uppskriftir af sælkerakræsingum sem hafa slegið í gegn hjá henni. Hildur gefur er lesendum uppskriftir forrétti, tveimur aðalréttum, einum eftirrétt og uppskrift af dýrindis sunnudagsbakkelsi. Svo toppar hún helgarmatseðilinn með guðdómlegum helgarkokteil sem á eftir að slá í gegn.

Hildur býður upp á dásamlegan forrétt sem ljúft er að njóta. „Þetta eru ristaðar bruschettur með hvítlauks-og kryddjurta rjómaosti frá Philadelphia, ofnbökuðum kokkteiltómötum og ferskum kryddjurtum. Svo ótrúlega bragðgott og ljúft með köldu hvítvínsglasi. Ekta réttur til þess að bera fram í matarboðum, saumaklúbbs-hittingum eða sem meðlæti með góðu pasta,“ segir Hildur.

Ómótstæðilegar bruschettur með rjómaosti og ofnbökuðum tómötum

1 baguette brauð, ég keypti súrdeigsbrauð

Philadelphia rjómaostur með hvítlauk

1 dl ólífuolía + 1 msk. ólífuolía

3 hvítlauksrif

200-250 g kokkteiltómatar

2 msk. ferskt oreganó, smátt skorið

2 msk. fersk basilíka, smátt skorið

Salt & pipar eftir smekk

Byrjið á því að skera baguette brauð í sneiðar. Leggið sneiðarnar á bökunarplötu þakta bökunarpappír. Blandið saman 1 dl ólífuolíu og tveimur pressuðum hvítlauksrifjum saman í litla skál. Penslið brauðið með hvítlauksolíunni. Skerið tómatana í bita og blandið saman við 1 msk. ólífuolíu, 1 pressað hvítlauksrif, oreganó, basilíku, salti og pipar. Dreifið þeim í lítið eldfast mót. Bakið brauðið og tómatana í um það bil 10 mínútur við 190°C. Smyrjið brauðsneiðarnar með rjómaostinum og dreifið tómötunum yfir. Gott að strá ferskum kryddjurtum yfir og njóta.

Í aðalrétti býður Hildur upp á tvo dýrindis sælkerarétti sem eru mjög ólíkir. Annars vegar ofur djúsí heimagerðan borgara með jalapeno, cheddar osti og dásamlegri hamborgarasósu frá Heinz og hins vegar risotto með stökkri parmaskinku í hlynsírópi, ferskum aspas og sítrónuberki. Parma skinkan verður extra stökk og ljúffeng ofnbökuð með hlynsírópi.

Jalapeno- & cheddar borgari

Fyrir 4

500 g nautahakk

1 egg

2-3 msk. jalapeno úr dós, smátt skorið

1½ dl rifinn cheddar ostur

4 msk. pankó raspur

Krydd:

1 tsk. laukduft, 1 tsk. salt, ¼ tsk. pipar

4 hamborgarabrauð

Cheddar ostur í sneiðum (mér finnst þessi mjúki bestur)

Kál

Buffalo tómatur

Rauðlaukur

Avókadó

Heinz American Style Burger sósa

Byrjið á því að blanda saman hakki, eggi, smátt skornu jalapeno, rifnum cheddar osti, raspi og kryddi í skál og hrærið vel saman með sleif eða skeið. Notið hendurnar til að útbúa pylsu úr nautahakksblöndunni. Skiptið henni í 4 jafna hluta og hnoðið í fjórar kúlur. Þrýstið á kúlurnar og myndið hamborgara. Skerið tómatinn, rauðlaukinn og avókadóið í sneiðar. Steikið hamborgarana á heitri pönnu eða grillið þar til þeir eru eldaðir í gegn. Setjið cheddar ost sneiðar í lokin. Grillið eða hitið hamborgarabrauðið. Dreifið sósunni á botninn, svo salati, kjöti, tómatsneið, rauðlauk, avókadó, meiri sósu og lokið borgaranum.

Kartöflubátar

8-10 stk. kartöflur

1 msk. ólífuolía

Krydd:

½ tsk. chiliduft, ½ tsk. laukduft, ¼ tsk. pipar, 1 tsk. salt

Heinz majónes

Tabasco Sriracha sósa

Ferskt kóríander

Skerið kartöflurnar í báta og blandið saman við ólífuolíu og krydd í skál. Dreifið í eldfast form og bakið í um 30 mínútur við 200°C. Dreifið majónesi, sriracha sósu og kóríander yfir þær eftir smekk.

Risotto með parma skinku, ferskum aspas og sítrónu

Fyrir 2-3

3 dl arborio hrísgrjón

9-10 dl kjúklingasoð (vatn og kjúklingateningur)

2 msk. smjör

1 dl hvítvín

1 laukur

1-2 hvítlauksrif

Salt og pipar eftir smekk

1 dl parmesan ostur + meira til að bera fram með

1 pakki parmaskinka

1-2 msk. hlynsíróp

Rifinn sítrónubörkur af ½-1 sítrónu

8-10 stk. ferskur aspas

Hellið vatni í pott og hitið. Bætið kjúklingateningi út í og hrærið saman við. Haldið kjúklingasoðinu heitu á vægum hita. Skerið laukinn smátt og steikið á pönnu upp úr smjöri. Pressið hvítlaukinn út í og hellið arborio grjónunum saman við og hrærið. Þegar grjónin eru orðin smá glær á endunum hellið þá hvítvíninu út í og hrærið saman við. Þau eru fljót að drekka í sig hvítvínið. Hellið því næst 1-2 dl af soðinu út í og hrærið. Þegar grjónin eru búin að drekka í sig soðið þá hellið þið aftur 1-2 dl af soði út í og hrærið. Gerið þetta koll af kolli þangað til að soðið er búið og grjónin tilbúin. Þau eiga að vera mjúk og rjómakennd. Ég mæli með því að smakka og ef þau eru ennþá seig bætið þá meira vatni við. Saltið og piprið eftir smekk. Dreifið svo rifnum parmesan ostinum út í og hrærið. Dreifið parmaskinkunni á bökunarplötu þakta bökunarpappír og penslið yfir með hlynsírópi. Bakið í 10-12 mínútur við 190°C eða þar til hún verður stökk. Skerið aspasinn í þunnar og langar sneiðar. Steikið upp úr ólífuolíu á pönnu og saltið og piprið eftir smekk. Rífið sítrónubörkinn í skál. Berið risottoið fram með parmaskinkunni, aspasinum, sítrónuberkinum og parmesan osti eftir smekk.

Eftirréttirnir úr smiðju Hildar eru báðir syndsamlega góðir og ótrúlega einfaldir að útbúa.

Jarðarberjakaka sem klikkar aldrei

Fyrir 3-4

300 g jarðarber

100 g smjör við stofuhita

100 g sykur

100 g hveiti

Milka með toffee creme

Skerið jarðarberin í tvennt, leggið þau í eldfast mót. Blandið saman með höndunum smjöri, sykri og hveiti. Dreifið deiginu yfir jarðarberin og að lokum Milka súkkulaðinu yfir deigið. Bakið við 190°C í um það bil 40 mínútur.

Gómsæt Dumlemús

Fyrir 4

1 poki Dumle karamellur

4 msk. rjómi

30 g smjör

2 eggjarauður

1 ½ dl rjómi

Toppa með

Þeyttum rjóma

Ferskum berjum

Dumle snacks eða Dumle karamellur, smátt saxað

Bræðið Dumle karamellur, 4 msk. rjóma og smjör í potti við vægan hita. Kælið í nokkrar mínútur. Blandið eggjarauðunum vel saman við með skeið. Léttþeytið rjóma og hrærið honum varlega saman við Dumle blönduna með skeið. Dreifið músinni í 4 glös og geymið í ísskáp í 1 klukkustund eða lengur. Gott að bera fram með rjóma, ferskum berjum söxuðu Dumle snacks eða karamellur.

Sunndagsbakkelsið sem Hildur mælir með er undurgott og gleður alla sem elska sæta bita með helgarkaffinu.

Möndlu croissant

4 croissant

40 g smjör, við stofuhita

½ dl sykur

1 dl möndlumjöl

1 msk. hveiti

1 egg

1 tsk. vanilludropar

½ tsk. möndludropar

½ dl möndluflögur

1-2 msk. flórsykur

Byrjið á því að hræra smjörið þar til það verður mýkra. Blandið sykrinum saman við og hrærið þar til blandan verður flöffý. Hrærið möndlumjölinu og hveitinu saman í aðra skál. Blandið helmingnum saman við smjörblönduna og hrærið rólega. Þegar það hefur blandast saman þá bætið þið restinni saman við og hrærið rólega. Blandið egginu, vanilludropum og möndludropum saman við. Skerið croissant-in í tvennt og fyllið botninn með 3 msk. af möndlublöndunni. Lokið þeim og smyrjið 1 msk. af fyllingunni á lokið. Dreifið möndluflögunum á disk og þrýstið croissant-unum ofan í möndlurnar. Bakið inn í ofni í 15-20 mínútur við 175°C á blæstri. Stráið flórsykri yfir nýbökuðu croissant-in.

Svo er það toppurinn á ísjakanum, helgarkokteillinn í boði Hildar, Basil gimlet. Basil gimlet er ferskur og góður kokteill með suðrænu yfirbragði. Síðan skemmir ekki hvað það er einfalt að útbúa hann. Þetta er klassískur gimlet kokteill sem inniheldur gin, límónu safa, sykursíróp og svo punkturinn yfir i-ið er fersk basilíka.

Basil gimlet

Fyrir 1

6 basilíku laufblöð

6 cl Roku gin

3 cl sykursíróp

3 cl safi úr límónu

Klakar

Setjið basilíku í kokteilahristara og merjið hana. Bætið út í gini, sykursírópi, safa úr límónu og klökum. Hristi vel saman í 15-20 sekúndur. Hellið í fallegt glas í gegnum sigti og skreytið með basilíku laufblöðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
04.04.2024

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu
Matur
03.04.2024

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna