Hópur Íslendinga hefur í fimm daga verið í einskonar gíslingu spænska flugfélagsins Vueling í Barcelona vegna tíðra niðurfellinga flugfélagsins á flugum til Íslands. „Flugið okkar átti að fara heim á mánudaginn en við sitjum enn fastar hérna úti á slæmu hóteli. Við eigum miða í flug á morgun en búumst fastlega við því að það verði fellt niður eins og hin flugin,“ segir Ásta Björg Ingadóttir, einn meðlimur hópsins.
Um er að ræða 15 manna hóp kvenna á vegum íslenskrar ferðaskrifstofu sem skellti sér í vikuhjólaferð til Spánar. Allt gekk vel þar til að heimförin kom en eins og áður segir hefur flugið nú verið fellt niður dag eftir dag. „Skýringin sem við fáum alltaf er sú að það sé vegna veðurs en á meðan hafa öll önnur flug verið á áætlun í Keflavík. Vueling þykist síðan ætla að fljúga á hverjum degi en aflýsa síðan fluginu eins seint og mögulegt er,“ segir Ásta Björg.
Hópurinn hafi treyst flugfélaginu til að byrja með en upplifi nú að flugfélagið hafi teymt þær á asnaeyrunum. „Möguleikar okkar á að endurbóka annað flug hafa því verið litlir því við höfum trúað því að verið væri að segja okkur satt. Þegar Vueling hefur svo aflýst ferðinni hafa önnur flug dagsins flest verið farin. Við höfum verið geymd á hóteli í um 40 mínútna fjarlægð frá Barcelona og dagarnir farið í að pakka, tékka sig út, bíða, tékka sig aftur inn, reyna að finna aðrar leiðir og fá svo aftur endurbókun í flug daginn eftir.“
Breyting varð þó á þegar meðlimir hópsins ráku augun í ráðstefnu á vegum Vueling á hótelinu undir hinni kaldhæðnislegu yfirskrift „Love at first flight“. „Við höfðum átt erfitt með að ná sambandi við flugfélagið símaleiðis og þeir í raun hættir að svara okkur. Við fórum því og ræddum við starfsmenn flugfélagsins á ráðstefnunni.“
Í kjölfarið virtist einhver hreyfing vera að koma á málin því skyndilega var hópnum tilkynnt að von væri á rútu sem myndi sameina alla farþega í Íslandsflugið á eitt hótel. „Okkur var í kjölfarið skutlað í tæpan klukkutíma lengst út í sveit á mun verra hótel en við vorum á. Það er hins vegar enginn annar hér og því lítur út fyrir að við höfum bara verið fjarlægð af hótelinu vegna þess að spurðum krefjandi spurninga.“
Ásta Björg segir að þolinmæðin og traustið gagnvart Vueling sé nú á þrotum og ferðaskrifstofan hafi nú bókað hópinn í aðra flugleið heim. „Andlegt ástand hópsins er í raun orðið tæpt. Margar okkar eru með börn heima og við erum að missa nánast viku í viðbót úr vinnu.“
Spænskir miðlar hafa einnig fjallað um málið því á Íslandi eru spænskir strandaglópar sem áttu flug heim með Vueling. Spænski miðillinn Heraldo ræðir við hóp Aragonbúa sem átti að fljúga heim til Spánar með Vueling þann 14. mars síðastliðinn en síðan hafi ferðinni verið frestað ítrekað vegna veðurs – þrátt fyrir að önnur flugfélög geti flogið. Í fréttinni kemur fram að Vueling beri fyrir sig hættulega vinda í kringum landið sem geri það að verkum að öryggi flugfarþega sé ekki tryggt.
Aragonbúarnir bera sig aumlega og sérstaklega er minnst á flutninga milli hótela þar sem annað var í einskismannslandi og annað í óaðlaðandi iðnarhverfi höfuðborgarinnar. Þá hafi flugfélagið gert litlar ráðstafanir varðandi mat handa strandaglópunum spænsku.