Volodymyr Zelenskyy, forseti, sagði í gærkvöldi að árásin á leikhúsið hafi ekki verið óviljaverk og að enn væri ekki ljóst hversu margir hefðu látist í henni. „Hjörtu okkar eru brostin vegna þess sem Rússar eru að gera fólkinu okkar,“ sagði hann. Hann líkti síðan umsátrinu og árásunum á Mariupol við umsátrið um Leníngrad í síðari heimsstyrjöldinni.
Ástandið í Mariupol er mjög slæmt og hefur verið það dögum saman. Rússar láta flugskeytum og stórskotaliðshríð rigna yfir borgina. Ekkert rennandi vatn er í borginni, matarskortur er mikill og eyðileggingin gríðarleg.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort manntjón hafi orðið í árásunum á leikhúsið og sundlaugina í gær en borgarstjórnin sagði í gær að „sprengjum var varpað á byggingar þar sem mörg hundruð friðsamir borgarbúar hafi leitað skjóls“. „Við vitum ekki hvort einhver lifið af,“ sagði einn sjónarvottur og bætti við að sprengjubyrgið væri þakið braki, það hafi verið fullorðnir og börn í því. Leikhúsið gegndi hlutverki loftvarnarbyrgis.
Pavlo Kyrylenko, hjá héraðsstjórn Donetsk, sagði að Rússar hafi einnig skotið á Neptune sundlaugina. „Núna eru barnshafandi konur og konur með börn undir rústunum þar,“ sagði hann á Telegram að sögn The Guardian og bætti að sögn við að útilokað sé að leggja mat á fjölda látinna eftir þessar árásir.