fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Leikskóli sagði upp barnshafandi deildarstjóra – Greindi frá óléttunni sama dag og hún skrifaði undir ráðningarsamning

Erla Hlynsdóttir
Fimmtudaginn 17. mars 2022 21:31

Mynd úr safni og tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrrverandi deildarstjóri við leikskóla í Reykjavík vann í gær dómsmál sem hún höfðaði gegn rekstraraðila leikskólans vegna þess að henni var sagt upp þegar hún var ólétt.

Ath. Upphaflega sagði í fréttinni að um leikskóla á vegum Hjallastefnunnar væri að ræða en það er ekki rétt. DV biðst velvirðingar á þessum mistökum.

Konan var enn á reynslutíma þegar henni var sagt upp og greindi frá óléttunni sama dag og skrifað var undir ótímabundinn ráðningarsamning. Hún var komin tíu vikur á leið þegar skrifað var undir. Konan hafði verið við vinnu í einn dag og tvær klukkustundir þegar henni var sagt upp og hún sögð virka áhugalaus og óörugg.

Konan krafðist þess að rekstraraðili leikskólans myndi greiða henni rúmar 4,7 milljónir króna ásamt vöxtum, auk þess að greiða málskostnað. Rekstraraðilinn krafðist sýknu af öllum kröfum, en til vara að fjárkrafa verði lækkuð sem og málskostnaðurinn.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að rekstraraðilinn skyldi greiða konunni tæpa 1,3 milljón króna auk vaxta, og málskostnaðar upp á 800 þúsund krónur.

Endurtekin veikindi

Konan var ráðin deildarstjóri við leikskólann þann 16. september 2019 og fyrsti starfsdagur var fyrirhugaður 1. nóvember. Einnig var gengið frá því að dóttir konunnar myndi fá leikskólapláss á öðrum leikskóla hjá sama rekstraraðila. Konan kom með dóttur sína í aðlögun 28. október en næsta dag mætti hún til fundar við leikskólastjórann þar, sem og aðstoðarleikskólastjóra, kvartaði undan aðbúnaði og sagðist ekki ætla að koma aftur með barnið að svo stöddu.

Konan mætti síðan til vinnu þann 1. nóvember eins og samið hafði verið um. Hún var fjarverandi vegna veikinda 4.-6. nóvember, en þann 7. nóvember var skrifað undir ótímabundinn ráðningarsamning. Á fundi eftir undirritunina sagði konan aðstoðarleikskólastjóra að hún væri ólétt og komin 10 vikur á leið. Hún var síðan aftur fjarverandi vegna veikinda frá 9.-15. nóvember og þegar hún mætti aftur til vinnu mánudaginn 18. nóvember var henni afhent uppsagnarbréf. Hún var án launatekna frá 1. janúar 2020 til fæðingardags barnsins sumarið 2020.

Enginn skriflegur rökstuðningur

Í uppsagnarbréfi kom fram að deildarstjóranum sé sagt upp störfum á reynslutíma með eins mánaðar fyrirvara, miðað við mánaðamót og ekki óskað eftir vinnuframlagi hennar á uppagnartíma. Ekki var skriflegur rökstuðningur fyrir uppsögninni.

Ágreiningur deildarstjórans og rekstraraðilans fyrir dómi snerist að því hvort heimilt hafi verið að segja henni óléttri upp á reynslutíma, hver uppsagnarfrestur væri og hvort hún ætti rétt á bótum.

Konan byggði mál sitt á því að það hafi verið brot að segja henni upp óléttri án skriflegs rökstuðnings eða gildra ástæðna.  Allar ástæður sem rekstraraðilinn hafi gefið hafi tengst meðgöngunni.

Raunar barst rökstuðningur ekki fyrr en 13. febrúar 2020 eftir samskipti Kennarasambandsins fyrir hönd deildarstjórans og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd leikskólans.

Þær ástæður sem gefnar voru upp fyrir uppsögninni voru fjarvistir hennar og skortur á trausti. Forsvarsmenn leikskólans sögðu óléttu ekki vera ástæðu uppsagnar. Þá vísar konan í að í þessum rökstuðningi sé því haldið fram að það hafi „komið leikskólastjóranum á óvart að A skyldi fyrst „muna“  eftir  því að tilkynna  um  þungun  sína  strax  eftir  undirritun  ráðningarsamnings  þar  sem fjölmörg tækifæri voru til þess að ræða það“. Þungun hennar hafi því einnig verið dregin inn í síðbúinn rökstuðning.

„Virkað áhugalaus, óörugg og ítrekað tilkynnt fjarvistir“

Þá segir í málatilbúnaði rekstraraðilans að deildarstjórinn hafi „virkað áhugalaus, óörugg og ítrekað tilkynnt fjarvistir á þeim stutta tíma sem hún hafi verið við störf. Þá er vísað til þess að hún hafi sjálf haft orð á því hvort hún ætti að segja upp á fundinum 18. nóvember 2020.“

Þetta kom konunni mjög á óvart, aldrei hafi verið rætt við hana um meint áhugaleysi og hún hafi aldrei fengið tiltal. Þá hafi hún starfað svo stutt sem deildarstjóri að hún hafi ekki fengið tækifæri til að sanna sig í starfi áður en henni var sagt upp. Sömuleiðis hafi hún boðist til að koma með vottorð vegna veikinda en það verið afþakkað.

Bótakröfu sína byggði hún á því að vegna uppsagnar hafi hún verið án launa eftir eina greiðslu frá leikskólanum og fram að fæðingu barnsins, þegar fæðingarorlof tók við. Þó tók hún fram að hún tók að sér verkefni sem verktaki á vorönn 2020 og fékk fyrir það 94 þúsund krónur á mánuði í fimm mánuði, og var síðan á atvinnuleysisbótum sem hún mótmælti að draga ættu frá bótakröfu hennar.  Í kröfunni miðar hún við að mánaðarlaun hennar sem deildarstjóri voru tæpar 500 þúsund krónur, þegar með var talið orlof og mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð.

Ólögmæt uppsögn

Rekstraraðilinn mótmælti alltaf að uppsögnin tengdist óléttunni. „Stefnandi hafi verið óörugg frá fyrstu  stundu  og  virst  eiga  erfitt  með  að  treysta  samstarfsfólki  sínu,  m.a.  fyrir dagvistun eigin barns. Ítrekaðar fjarvistir hafi ekki verið til þess fallnar að bæta þar úr. Í röksemdabréfinu hafi því verið lýst að í öllu starfi leikskólans séu þarfir barnanna í fyrsta sæti og að traust starfsfólk og stöðugleiki í starfsmannahaldi sé grundvallaratriði  í  því  sambandi.  Stjórnendur  stefnda hafi metið  það  svo  að stefnandi  hefði  ekki  uppfyllt  þær  væntingar  sem  gera yrði til  deildarstjóra áleikskólum og ennfremur að mikið hefði vantað upp á áhuga hennar á starfinu.

Með hagsmuni barnanna að leiðarljósi hafi það verið niðurstaðan að stjórnendur stefnda hefðu ekki getað treyst stefnanda til að taka við stjórn deildarinnar og að hún hefði ekki getu til að valda svo mikilvægu og vandasömu starfi.“

Dómari taldi rekstraraðilann þó ekki hafa sýnt fram á gildar ástæður fyrir uppsögn. Uppsögnin hafi því verið ólögmæt en upphæð bóta var mun lægri en konan óskaði eftir, en meðal annars voru atvinnuleysisbætur dregnar frá kröfunni.

Þá segir í niðurstöðu dómsins:

„Athugasemdir stefnanda  sem  foreldris 10  mánaða  gamals  barn við  aðbúnað  á öðrum  leikskóla, sem  stefnandi  rekur, eru  ekki  gildar  ástæður  fyrir  uppsögn  í skilningi 30. gr. laga nr. 95/2009. Þegar ákvörðun var tekin um að segja stefnanda  upp störfum   hafði hún einungis verið við vinnu í einn dag og tvær klukkustundir. Ekki er við því að búast að starfsmaður ávinni sér sérstakt traust á svo skömmum tíma og þessi takmarkaði tími gaf ekki tilefni til að draga afgerandi ályktanir um áhuga stefnanda á starfinu og getu til að sinna því. Þó veikindi í upphafi starfssambands  séu  vissulega  óheppileg,  þá  er  óumdeilt  að  stefnandi  var  fjarverandi vegna veikinda  á þessum tíma og því um lögmæt forföll að ræða.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja
Fréttir
Í gær

Fjórtán ára drengur stórslasaður eftir að hafa tekið upp flugeld – „Af hverju heldur fólk að einhverjir aðrir gangi frá?“

Fjórtán ára drengur stórslasaður eftir að hafa tekið upp flugeld – „Af hverju heldur fólk að einhverjir aðrir gangi frá?“
Fréttir
Í gær

Anna greindist með krabbamein og þurfti í bráðaaðgerð – „Meinið er búið að dreifa sér“

Anna greindist með krabbamein og þurfti í bráðaaðgerð – „Meinið er búið að dreifa sér“
Fréttir
Í gær

Þrýst á Sigurð Inga að axla ábyrgð eftir slakan árangur Framsóknarflokksins

Þrýst á Sigurð Inga að axla ábyrgð eftir slakan árangur Framsóknarflokksins
Fréttir
Í gær

Billy Crystal missti heimili sitt til 46 ára – Paris Hilton horfði á húsið sitt brenna

Billy Crystal missti heimili sitt til 46 ára – Paris Hilton horfði á húsið sitt brenna