Frosti Logason, dagskrárgerðar- og sjónvarpsmaður á Stöð 2, er kominn í leyfi frá störfum. Þetta gerist í kjölfar þess að Edda Pétursdóttir, fyrrverandi kærasta Frosta, kom fram í hlaðvarpinu Eigin konur og sagði frá andlegu ofbeldi af hans hálfu. Hún sagði hann til að mynda hafa tekið sig upp í kynferðislegum athöfnum án þess að hún vissi og að hann hafi svo hótað að dreifa því.
Sjálfur steig Frosti svo sjálfur fram í gær og gekkst við ofbeldinu. „Ég vil taka það skýrt fram að ég tek fulla ábyrgð á minni hegðun og rengi ekki upplifun hennar,“ sagði hann í yfirlýsingu sem hann birti á Facebook-síðu sinni.
Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Miðla hjá Sýn, staðfesti að Frosti væri kominn í leyfi í samtali við mbl.is. Þórhallur segir að Frosti hafi óskað eftir því að fara sjálfur í ótímabundið leyfi. Þá segir hann einnig að málið hafi verið til umræðu þegar Frosti bað um að fara í leyfi. Þórhallur segist ekki geta sagt til um hvort Frosta verði sagt upp en að málið sé ennþá í skoðun.
Frosti hefur undanfarið verið einn af dagskrárgerðarmönnum þáttarins Ísland í dag á Stöð 2. Þá var hann einnig einn af stjórnendum útvarpsþáttarins Harmageddon sem útvarpað var á X-inu 977. Þátturinn hætti þó störfum í þeirri mynd í fyrra en snéri fljótlega aftur til baka í hlaðvarpsformi.
Uppfært kl. 16:35:
Frosti situr í stjórn SÁÁ en hann er einnig kominn í leyfi frá störfum sínum í stjórn samtakanna. Þetta staðfesti Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, í samtali við DV.