Svanur Már Snorrason, bókmenntafræðingur og blaðamaður, fagnaði nýlega sigri eftir áralöng átök við Hafnarfjarðarbæ, eftir að hafa verið vikið úr starfi hjá bókasafni Hafnarfjarðar með ólögmætum hætti. Hann hvetur aðra sem lenda í þeirri stöðu að vera ranglega bornir sökum til að standa í lappirnar og leita réttar síns.
Svanur Már hafði alls starfað í níu ár hjá Bókasafni Hafnarfjarðar þegar ráðningarsamningi hans var skyndilega rift haustið 2019. Við tók atburðarás sem átti eftir að standa yfir árum saman en hefur nú lokið með sigri Svans gegn bænum. Hann fór yfir málið með blaðamanni.
Svanur rekur aðdraganda málsins til starfa hans sem trúnaðarmanns á bókasafninu. En áður en honum var sagt upp störfum hafði hann í fyrsta sinn þurft að takast á við þung mál sem komu upp á vinnustaðnum.
„Þá þarf ég í fyrsta skiptið að fara með bréf sem trúnaðarmaður. Auðvitað höfðu komið upp minni atvik sem var hægt að leysa á stuttum fundum en þetta var í fyrsta skiptið sem það komu upp svona erfið tvö mál og ég varð að gera mína skyldu, tala við starfsmenn, rita bréf og fara með á réttan stað. Síðan byrjar bara einhver stórfurðuleg atburðarás.“
Skyndilega var Svanur „kallaður á teppið“ og honum fundið allt til foráttu. Var hann sakaður um að vera afburðalélegur starfskraftur og vændur um bæði skemmdaverk og þjófnað.
„Ég hélt þetta væri einhver brandari, falin myndavél eða eitthvað,“ segir Svanur sem ætlaði til að byrja með ekki að trúa því sem var að eiga sér stað. Í framhaldinu var honum gefinn kostur á að segja starfi sínu lausu og fá þá greidda út þrjá mánuði í uppsagnarfrest, jafnvel nokkra til viðbótar.
„Staðan var allt í einu gjörbreytt, frá því að vera mjög góð yfir í alvarlegar lygar og ásakanir sem var ekki hænufótur fyrir að neinu leyti,“ segir Svanur sem fram að þessu hafði átt flekklausan níu ára starfsferil hjá bókasafninu. Svanur ákvað að taka ekki boði bæjarins.
„Að standa frammi fyrir því allt í einu eftir, níu ár, að vera rekinn eins og hálfgerður terroristi og þjófur. Það eina sem mér datt í hug strax, var að afþakka pent, eða kannski ekki mjög pent, og fá mér bara lögfræðing.“
Svanur segir að um leið og ljóst var að hann ætlaði ekki að segja sjálfur upp hafi harka færst í leikinn og daginn eftir var ráðningarsamningi hans rift, en riftingu ráðningarsambands er að jafnaði ekki beitt nema um verulegar vanefndir sé að ræða eða brostnar forsendur.
Svanur var jafnframt trúnaðarmaður, en þeirri stöðu hefur verið veitt viss lögbundin uppsagnavernd, en ekki má segja trúnaðarmanni upp sökum starfa hans sem trúnaðarmaður.
„Þeir njóta ákveðinnar verndar innan þeirra marka að þeir hegði sér skikkanlega og séu góðir í starfinu – eins og ég gerði og var.“
Svanur segir að málatilbúnaður bæjarins hafi verið hinn furðulegasti og telur hann líklegt að uppsögnina megi rekja til bréfsins sem hann þurfti sem trúnaðarmaður að fara með fyrir hönd átta starfsmanna af fjórtán þar sem finna mátti alvarlegar ávirðingar í garð tveggja deildarstjóra.
Sökum trúnaðarskyldu getur Svanur ekki farið nánar í hvers eðlis þær ávirðingar voru en hann tók þó fram að ekki hefði verið óvenjulegt að þær hefðu leitt til brottreksturs.
Svanur bendir einnig á að ef eitthvað hefði verið hæft í þeim sökum sem á hann voru bornar, hefði þá ekki einhver tekið hann tali á þeim níu árum sem hann hafði starfað hjá bókasafninu?
„Hefði nú ekki verið allt í lagi að benda mér aðeins á þetta fyrr? Þetta var allt svo skrýtið.“
Svanur segir að þó svo að hann hafi í dag gert upp málið við Hafnarfjarðarbæ þá breyti það því ekki að málið var gífurlegt högg.
„Þetta er líklega eitt það þyngsta högg sem ég hef fengið. Ég vissi varla hvar ég var staddur. Þetta kom svo á óvart að ég hef aldrei lent í öðru eins í lífinu. Það er algjör viðbjóður að vera sakaður um svona, þetta er bara hálfgert mannorðsmorð.“
Svanur segist hafa orðið verulega heppinn með þá lögmenn sem tóku mál hans að sér. Þeir fóru með málið upp í sveitarstjórnarráðuneyti sem komst að þeirri niðurstöðu að bærinn hefði brotið gegn Svani. Ákvað bærinn að unna þeirri niðurstöðu og tóku þá við samningaviðræður um uppgjör.
„Bænum datt ekki einu sinni í hug að áfrýja, bara settust niður og vissu að þeirra mál var í raun byggt á sandi, lygum og drasli.“
Þeim lauk svo með því að Svanur fékk „verulegar bætur“. Svanur bendir á að málið hafi einnig kostað bæinn mikið í lögmannakostnaði í gegnum þennan langa tíma sem það tók, og þetta séu peningar sem komi ekki úr vösum þeirra sem ranglega báru á hann sakir, heldur úr vösum skattgreiðenda í Hafnarfirði. Þeir sem eigi sökina í málinu hafi þó ekki þurft að taka neina ábyrgð.
„Ég hef ekki heyrt að þau hafi þurft að svara eitthvað fyrir þetta og það liggur þungt á mér. Mér finnst mjög ósanngjarnt og óeðlilegt í alla staði að einhver geti bara logið upp á annan, og þegar það er sýnt fram á það sé kjaftæði þá fær gerandinn að vera í friði. Ég skil þetta ekki. Ég meina getur bara hver sem er gert svona án þess að þurfa að taka afleiðingunum?“
Svanur lét setja ákvæði í samninginn sem bærinn gerði við hann um að honum sé fyllilega heimilt að höfða einkamál við þá aðila sem bera ábyrgð á brottrekstri hans.
„Þetta gjörsamlega rústaði lífi mínu í töluvert langan tíma. Hjónabandið mitt fór og ég fór á tímabili hálfa leið til heljar, en komst sem betur fer aftur til baka. Það er algjör viðbjóður að lenda í svona.“
Svanur hvetur alla þá sem lenda í því að vera saklausir bornir sökum að leita réttar síns.
„Mér liði miklu verr í dag heldur en árið 2019 en ef ég hefði ekki tekið slaginn, ég veit ekki hvar ég væri þá, ég hefði aldrei geta horfst í augu við sjálfan mig ef ég hefði ekki tekið slaginn.“
Svanur telur margt í ólagi í stjórnsýslu Hafnarfjarðar og er feginn að hann hafði sig í að standa í lappirnar gegn þeim. Í færslu sem hann ritaði um málið á Facebook líkti hann þessu við Davíð sem lagði risann Golíat að velli.
„Þetta var ferðalag sem er búið en ég hefði gjarnan viljað sleppa við að fara í þetta ferðalag. En ég er enn uppistandandi og ég fæ hamingjuóskir á hverjum degi núna og þetta fór allt vel að lokum, en ég gæfi mikið fyrir að þetta hefði ekki farið af stað.“
Hann vonar að reynsla hans geti hjálpað öðrum sem finna sig í sambærilegri stöðu og segir að hann sé boðinn og búinn til að veita aðstoð.
„Leitaðu réttar þíns, stattu upp og bíttu frá þér, það eru mín skilaboð og ef ég get aðstoðað einhvern við að brýna tennurnar þá skal ég glaður hjálpa.“