Landsréttur hefur vísað kæru Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns á Stundinni, frá Héraðsdómi Norðurlands eystra. Þetta er fullyrt í frétt RÚV sem segir Eyþór Þorbergsson, varasaksóknari hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra, hafa staðfest niðurstöðuna en úrskurðurinn hefur ekki enn verið birtur á vef dómstólsins. Aðalsteinn hefur þegar greint frá því að úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar.
Í febrúarlok komst Héraðsdómur Norðurlands eystra að þeirri niðurstöðu að lögreglunni á Norðurlandi eystra hafi verið óheimilt að veita Aðalsteini Kjartanssyni, blaðamanni Stundarinnar, réttarstöðu grunaðs manns í rannsókn vegna umfjöllunar um „skæruliðadeild“ Samherja. Stundin greindi fyrst frá.
Eins og Aðalsteinn greindi frá í pistli á Stundinni um miðjan febrúarmánuð þá hafði hann óskað eftir því að dómstólar myndi skera úr um hvort að lögreglunni væri heimilt að kalla sig til skýrslutöku sem sakborningi í málinu.
Niðurstaða héraðsdóms var afdráttarlaus en í úrskurðinum kom fram að Aðalsteinn gæti ekki, sem blaðamaður, hafa brotið hegningarlög með því að móttaka eða sjá viðkvæm persónuleg gögn sem ekki varða almenning enda sé það einmitt þáttur í starfi blaðamanna að móttaka slík gögn og meta hvað eigi erindi í fjölmiðla og hvað ekki.
Þá var bent á það í úrskurðinum að það sé ekki sjálfsögð né léttvæg ákvörðun að hafa veitt Aðalsteini stöðu sakbornings enda geti sú staða haft í för með sér ýmis óþægindi og skaðað orðspor hans.
Í umfjöllun RÚV segir varasaksóknarinn Eyþór að rannsókn málsins muni nú halda áfram og Aðalsteinn verði í framhaldinu boðaður í skýrslutöku vegna málsins auk þriggja annarra blaðamanna, Þórði Snæ Júlíussyni, Arnari Þór Ingólfssyni og Þóru Arnórsdóttur.
Uppfært:
Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur birt úrskurðinn á Facebook-síðu sinni. Í honum kemur fram að Landsréttur telur lög og reglur um fjölmiðla og vernd heimildarmanna ekki leiða af sér skyldu til að tryggja þeim vernd gegn rannsókn lögreglu á ætluðum brotum þeirra gegn almennum hegningarlögum við rækslu starfa þeirra.