Gríðarlegur eldsvoði á sér nú stað í vörudreifingarmiðstöð Walmart-verslunarrisans í Bandaríkjunum. Miðstöðin er í útjaðri Indianapolisborgar og eins og neðangreint myndband sýnir glöggt er eldhafið illviðráðanlegt.
Um 1.000 manns voru að störfum í byggingunni þegar eldurinn kviknaði en blessunarlega virkaði eldsviðvörunarkerfi miðstöðvarinnar eins og vera ber og þannig komust allir út úr byggingunni heilir á húfi.
Þá voru slökkviliðsmenn við æfingar skammt frá og voru aðeins þrjár mínútur á vettvang frá því að eldurinn braust út. Byggingin er ógnarstór eða um 100 þúsund fermetrar. Slökkvistarf stendur enn yfir en ljóst er að um gríðarlegt tjón er að ræða. Eldsupptök eru ókunn.