Edda Falak, aktívisti og hlaðvarpsstjórnandi með meiru, er komin í samstarf með Stundinni en hlaðvarpsþættir hennar, Eigin konur, munu hér eftir birtast á Stundinni. Þá segir Stundin að ritstjórn þeirra muni veita ráðgjöf og aðstoð við heimildarvinnu í undirbúningi þáttanna.
Edda segir í samtali við DV að hún sé mjög spennt fyrir samstarfinu.
Í fyrra hóf Edda að birta hluta af hlaðvarpsþáttunum bakvið greiðsluvegg á vefsíðunni Patreon. Nú munu áskrifendur Stundarinnar fá aðgang að lokuðu þáttunum en þeir verða einnig opnir fyrir áskrifendur hlaðvarpsins á Pateron.
Síðan hlaðvörp fóru að verða vinsæl hér á landi hefur það verið mikið milli tannanna á fólki hvort flokka eigi hlaðvörp sem fjölmiðla. Þar sem Eigin konur er nú komið í samstarf með Stundinni hlýtur að vera erfitt að telja hlaðvarpið ekki sem fjölmiðil.
Þá er Edda einnig orðinn félagi í Blaðamannafélagi Íslands en fyrir þá sem eru áhugasamir um skrásetningu fólks í félaginu, sem eru eflaust engir nema kannski nokkrir blaðamenn, fékk Edda úthlutað blaðamannaskírteini númer 579.