Nokkur átök hafa átt sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar hér á landi undanfarin misseri og er þar skemmst að minnast þeirra deilna sem hafa ríkt innan Eflingar. En átökin eru víðar.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hafa báðir harðlega gagnrýnt Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og forystu sambandsins. Meðal annars hefur því verið haldið fram að ASÍ sé undir stjórn valdamikilla skuggaeinstaklinga sem þrái ekkert heitar en að sjá hið svokallaða SALEK rammasamkomulag verða að veruleika.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, hefur hingað til forðast að lenda í orðaskaki við þá Ragnar og Vilhjálm. En hún hefur nú gert undantekningu frá því og hefur birt ítarlega grein hjá Vísi þar sem hún fer yfir málið.
„Þegar ég tók við embætti forseta ASÍ haustið 2018 einsetti ég mér að forðast fram í lengstu lög að munnhöggvast við félaga mína opinberlega […] En nú er svo komið að ég get ekki setið lengur þegjandi hjá þegar formaður stærsta verkalýðsfélags landsins og stræsta aðildarfélags ASÍ fer ítrekað fram opinberlega og málar Alþýðusambandið upp með þeim neikvæða hætti sem hann gefur gert í tveimur greinum og fleiri viðtölum.“
Drífa segir að í gegnum tíðina hafi formenn VR gjarnan viðrað þær hugmyndir að ganga úr ASÍ, en af því hafi þó aldrei orðið. Hins vegar hafi enginn hótað því jafn oft og Ragnar Þór.
„Þess á milli hótar hann því að beita valdi sínu til að reyna að skerða tekjustofna ASÍ. Þessar hótanir hafa gjarnan komið í kjölfar þess að formaðurinn er ósáttur við stefnu sambandsins eða ákvarðanatöku í tilteknum málum.“
Drífa segir að Ragnari verði tíðrætt um lífeyrismál. Hann vilji veikja samtryggingarhluta kerfisins og styrkja séreignarhlutann. Því sé meirihlutinn innan ASÍ ósammála. Ragnar hafi ásamt Vilhjálmi stungið upp á því í upphafi COVID að tímabundið yrði dregið úr mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði til að létta fyrirtækjum róðurinn. Telur Drífa að Vilhjálmur og Ragnar hafi átt í hliðarsamtölum við fulltrúa atvinnurekenda þar sem var rætt um þessa skerðingu. Hins vegar hafi meirihluti ASÍ verið ósammála og vildu verja kjarasamninga.
„Viðbrögð Vilhjálms og Ragnars voru að storma á dyr, en eftir viku af yfirlýsingum og gífuryrðum vildu þeir báðir draga afsögn sína til baka. Þá var búið að afgreiða afsögn Vilhjálms í miðstjórn, kominn var inn nýr fulltrúi í hans stað. Afsögn Ragnars var hins vegar ekki búið að afgreiða þar sem skilaboð sem frá honum bárust voru tvíræð og þegar hann loks staðfesti afsögn sína beið afgreiðslan næsta fundar. Ég rek þetta hér því bæði Ragnar og Vilhjálmur hafa haldið því ítrekað fram að geðþótti og ásælni í fjármagn VR hafi ráðið því að mál þeirra voru afgreidd með ólíkum hætti.“
Drífa segir að svo hafi komið á daginn að engin þörf var að minnka mótframlagið. Það hefði engum gagnast nema atvinnurekendum og þvert á móti veikt lífeyrissjóði. Tillaga Ragnars og Vilhjálms hefði sparað atvinnurekendum tíu millljarða á hverjum ársfjórðungi á kostnað vinnandi fólks.
Drífa segir að þó megi alveg taka undir ýmislegt í gagnrýni Ragnars á lífeyrissjóðina og vissulega hafi ASÍ forðast að ræða um þetta kerfi of lengi. Miðstjórn ASÍ hafi því ákveðið að efna til rökræðufundar um lífeyrismál í byrjun þessa mánaðar til að dýpka og kjarna umræðuna.
„Mikið var lagt í undirbúning fundarins en þegar á hólminn var komið neitaði Ragnar að taka þátt í fundinum og krafði aðra félaga í Landssambandi Verzlunarmanna um að gera slíkt hið sama. Ástæðan var sú að hann móðgaðist yfir tölvupóstsamskiptum sem komu þessum fundi ekkert við. Ég spyr því: Vill hann raunverulega breyta lífeyrissjóðskerfinu og vinna skoðunum sínum fylgi, eða finnst honum nóg að viðhafa gífuryrði í blaðagreinum?“
Drífa rekur einnig að búið sé að hafna SALEK samkomulaginu. Það hafi vissulega verið ágreiningur um það innan ASÍ en það hafi verið til lykta leitt árið 2016 þegar því var hafnað.
„Að halda því fram að ASÍ hafi leynt og ljóst unnið að SALEK síðan þá er hreinn uppspuni. Innan ASÍ er andstaða við þær hugmyndir sem þá voru á borðum.“
Drífa segir að Ragnar hafi einnig gagnrýnt ákvarðanatökuferla innan ASÍ og að hans félag, VR, hafi þar ekki meira vægi vegna stærðar VR. Drífa er þeirri túlkun ósammála og segir. mikilvægt að smærri stéttarfélög hafi einnig rödd sem skipti máli innan ASÍ. Eins hafnar Drífa þeirri túlkun Ragnars að hún sæki sitt umboð til hans eða einstakra formanna innan ASÍ. Hún hafi verið kjörin á þingi ASÍ og sæki umboð sitt þangað.
Að lokum rekur Drífa það að verkalýðshreyfingin er stærri og meiri heldur en þeir einstaklingar sem stýri henni á hverjum tíma og verði að lifa þær persónur og leikendur af sem eru á sviðinu hverju sinni. Sterkust sé hreyfingin þegar hún stendur saman og nú – á ári þar sem kjarasamningar eru lausir – sé ekki rétti tíminn í hörð innanbúðarátök, en ef til þess komi þó mun Drífa tala áfram máli ASÍ.