Sjúklingar með virkt Covid-19 smit munu geta keypt lítið magn af lyfinu Parkódín (500 mg/10 mg) án lyfseðils með tímabundinni heimild Lyfjastofnunar frá og með deginum í dag. Þessi breyting mun létta álagi af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en læknar heilsugæslunnar hafa ávísað lyfinu til að slá á hósta, sem er eitt einkenna Covid-19.
Til að hægt verði að kaupa lyfið í lausasölu þarf að framvísa staðfestingu á Covid-19 smiti úr Heilsuveru og má staðfestingin ekki vera eldri en mánaðargömul þann dag sem lyfið er keypt. Ef lyfið er keypt af öðrum en sjúklingi þarf skjáskot eða útprentun úr Heilsuveru, auk umboðs til að sækja lyf fyrir viðkomandi sjúkling. Hægt verður að kaupa lyfið í lausasölu til 18. apríl næstkomandi.
Til að koma í veg fyrir misnotkun verður einungis hægt að kaupa 10 stykki og munu lyfjafræðingar skrá hverja lyfjaávísun þannig að hún verði aðgengileg eftirlitsaðilum.