Soldatov var spurður hvort hugsast geti að liðsmenn leyniþjónustunnar FSB, sem Pútín stýrði eitt sinn, muni ræna völdum. Hann sagði það ekki útilokað og benti á að í síðustu viku lét Pútín setja yfirmann FSB í stofufangelsi. Hann er að sögn ósáttur við þær upplýsingar sem FSB lagði á borðið fyrir innrásina en í þeim kom að sögn fram að Úkraínumenn myndu gefast fljótt upp og auðvelt yrði að vinna sigur á þeim. Annað hefur heldur betur komið á daginn.
Soldatov sagði að þrátt fyrir að ekki sé hægt að útiloka neitt þá verði að hafa í huga að Pútín hafi hlotið þjálfun hjá sovésku leyniþjónustunni KGB og sé vel meðvitaður um eigið öryggi. Hann sé ekki með eina öryggisþjónustu fyrir sjálfan sig heldur tvær. Hann muni því líklega fara varlega og sé undir það búinn að reynt verði að bola honum frá völdum.
Ummæli Soldatov eru ekki ólík ummælum Andrei Kozyrev, fyrrum ráðherra í Kreml, sem sagði nýlega í samtali við The Times að vaxandi líkur séu á að reynt verði að koma Pútín frá völdum.