Anton Siluanov, fjármálaráðherra Rússlands, skýrði frá þessu á sunnudaginn að sögn Bloomberg. Refsiaðgerðirnar takmarka aðgang Rússa að gjaldeyrisforðanum en forðinn hefur stundum verið nefndur „stríðssjóðurinn“ í tengslum við stríðið í Úkraínu.
Gjaldeyrisforðinn er notaður í viðskiptum við önnur ríki og seðlabankar geta einnig notað hann til að stýra gengi eigin gjaldmiðla ef þörf krefur.
Það er því ljóst að refsiaðgerðirnar hafa mjög takmarkandi áhrif á getu rússneska seðlabankans til að láta efnahagslífinu vestræna gjaldmiðla í té en vaxandi þörf er á þeim vegna refsiaðgerða Vesturlanda.
Rússar hafa byggt gjaldeyrisforða sinn upp á mörgum árum, meðal annars með tekjum af útflutningi á orkugjöfum á borð við gas. Vesturlönd gátu fryst stóran hluta forðans því hann er í erlendum gjaldmiðlum.
Siluanov sagði að Vesturlönd þrýsti mikið á Kína um að loka á aðgengi Rússa að þeim hluta gjaldeyrisforðans sem er í yuan, kínverska gjaldmiðlinum. Hann sagðist þó telja að samband Rússlands og Kína sé svo gott að Kínverjar muni ekki loka á Rússa.