Uppselt hefur verið í allar ferðir síðustu daga og sú hugmynd hefur verið viðruð að fjölga lestaferðum um helming til að mæta eftirspurninni. Aðeins finnskir og rússneskir ríkisborgarar fá að ferðast með lest á milli borganna. Vagnarnir eru fullir af fólki við komuna til Helsinki en nær tómir þegar lagt er af stað aftur til St. Pétursborgar.
Fréttamaður TV2 ræddi við nokkra farþega við komuna til Helsinki og spurði út í ástæður þess að þeir væru komnir til Finnlands. Svörin voru mismunandi, sumir sögðust hafa farið vegna þess að þeir væru hræddir vegna innrásarinnar í Úkraínu. Ein þeirra er Katarina sem sagði: „Allt er óskiljanlegt, í landinu okkar eru allir hræddir.“
Aðrir sögðust hafa misst vinnuna vegna refsiaðgerðanna og vaxandi verðbólgu.
Yana Champigny, sem býr í Frakklandi, var að koma úr heimsókn hjá rússneskri fjölskyldu sinni. „Í Rússlandi dugir ellilífeyrir móður minnar nú fyrir einni verslunarferð fyrir okkur í Frakklandi,“ sagði hún.
En eitt áttu allir viðmælendurnir sameiginlegt. Þeir vildu komast frá Rússlandi.
Margir nýta sér einnig að Serbía er opin fyrir Rússa en Serbar hafa ekki gripið til neinna refsiaðgerða vegna innrásarinnar. Air Serbia hefur tvöfaldað fjölda flugferða á milli landanna.
Ef Rússarnir vilja komast áfram til ESB þurfa þeir vegabréfsáritun og einnig þurfa þeir að vera bólusettir gegn kórónuveirunni með bóluefni sem ESB viðurkennir. Rússneska spútník bóluefnið er ekki í þeim flokki. Margir fara því með rútum til Armeníu, Georgíu eða Tyrklands en í þessum löndum eru stækkandi rússneskir minnihlutahópar að sögn Al Jazeera.
The Gurdian hefur eftir Andrei Kolesnikov, hjá Carnegie Moscow Center, að það sé viðbúið að margir Rússar yfirgefi ættjörðina og að það sé aðallega „úrvalsvinnuafl“ sem það gerir, fólk sem sér enga framtíð í Rússlandi. Margir í þessum hópi eru með góða menntun og sagði Kolesnikov að lítið væri af vel menntuðu fólki í Rússlandi og að án þess geti Rússland ekki þróast.