Síðast í gær sagði Dmitrij Peskov, talsmaður Pútín, að hernaðurinn, sem Rússar kalla „sérstaka hernaðaraðgerð“, gangi eftir áætlun og að herinn muni ná öllum markmiðum sínum á tilsettum tíma og að fullu. Upplýsingar vestrænna leyniþjónustustofnana benda hins vegar til að þetta sé ekki rétt.
En nú eru aðrar raddir farnar að berast frá Kreml. Í yfirlýsingu sem var birt á heimasíðu rússneska þjóðvarðliðsins er haft eftir Viktor Zolotov, yfirmanni þjóðvarðliðsins og meðlimi í öryggisráði Pútín, að ekki gangi allt eins og áætlanir gerðu ráð fyrir: „Ég vil gjarnan segja að, já, að ekki gengur allt eins hratt og við óskum.“
Hann sagði jafnframt að úkraínskir hermenn noti óbreytta borgara sem skjöld og það geri aðgerðir Rússa erfiðari.
Zolotov er einn af nánustu bandamönnum Pútín. Áður en hann var gerður að yfirmanni þjóðvarðliðsins, sem samanstendur af herlögreglumönnum, var hann árum saman yfirmaður lífvarðarsveita Pútín og hann hefur því eytt mörgum klukkustundum með forsetanum.
Þetta er í fyrsta sinn sem einhver úr innsta hringnum í Kreml gefur í skyn að hernaðurinn gæti hafa gengið betur. Þetta er því merki um að sprungur séu að koma í frásagnir valdhafa í Kreml um gang stríðsins. Hugsanlega sagði Zolotov þetta vegna óánægju innan þjóðvarðliðsins með gang stríðsins og þetta gæti opnað fyrir að fleiri fari að tjá sig um gang þess.