fbpx
Þriðjudagur 11.mars 2025
Fréttir

Sonur Sigurðar laus úr öndunarvélinni – „Ég er algjörlega agndofa og eiginlega orðlaus“

Máni Snær Þorláksson
Mánudaginn 14. mars 2022 12:54

Mynd af Sigurði: Ernir - Mynd af Árna: Facebook/Sigurður Þ. Ragnarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það vakti mikla athygli um síðustu jól þegar Sigurður Þ. Ragnarsson, veðurfræðingur og bæjarfulltrúi Miðflokksins í Hafnarfirði, sem einnig er þekktur sem Siggi Stormur, greindi frá því að syni hans, Árni Þórði, væri haldið sofandi á Landspítalanum vegna mjög alvarlegrar líffærabilunar.

Lesa meira: Sonur Sigurðar í lífshættu á Landspítalanum – „Það er mjög gott að finna stuðninginn“

Jólin voru því erfið hjá Sigurði og fjölskyldu hans sem og næstu mánuðir. Nú eru þó bjartari tímar framundan því Árni er laus úr öndunarvélinni og útlit er fyrir að hann útskrifist af gjörgæslunni á næstunni.

Sigurður segir í samtali við DV að um sannkallað kraftaverk sé að ræða. „Auðvitað erum við bara í sjöunda himni en mér finnst þetta ennþá svolítið óraunverulegt. Ég get verið svolítill hörmungarhyggjumaður þannig maður hefur stigið mjög varlega til jarðar þar til að hann verður útskrifaður af gjörgæslu, sem verður þó sennilega bara í dag,“ segir hann.

„Maður stígur varlega til jarðar í öllum fögnuði en auðvitað er okkur alveg stórkostlega létt. Það er bara eins og blý hafi verið tekið af öxlunum, kvíðahnútarnir eru allir að leysast upp. Þetta er búinn að vera alveg hræðilegur tími, skelfilegur tími, og þessi rosalega óvissa, nagandi óvissa vikum og mánuðum saman fer alveg rosalega illa með mann. En ég vorkenni mér minnst náttúrulega, það er hann sem þurfti að ganga í gegnum þetta.“

Vildi komast í píanó

Árni er búinn að liggja inni á gjörgæslu í tvo og hálfan mánuð en hann hefur sýnt miklar framfarir síðan hann vaknaði. „Það var búið að vara við ýmsu, til að mynda að hann gæti bara vaknað lamaður og að það þyrfti bara að kenna honum að ganga upp á nýtt. Allir vöðvar rýrna náttúrulega og svoleiðis en það merkilega er að hann er ótrúlega sterkur. Hann var náttúrulega í ágætu formi og er lærður íþróttafræðingur, hvort þetta tvennt hjálpi eitthvað – örugglega,“ segir Sigurður.

Ljóst er að hugarfar Árna er einnig sterkt því um leið og hann losnaði úr öndunarvélinni þá vildi hann strax komast í píanó því hann vildi ekki tapa hæfileikunum á því. „Það fyrsta sem hann sagði var að hann þyrfti að komast í píanóið og að hann mætti ekki glata niður því sem hann kynni þar. Hann var settur í hjólastól og farið um Landspítalann – þá kom í ljós að þeir áttu forlátan flygil. Hann rúllaði hjólastólnum með súrefniskútinn á stólnum og tók þarna nokkur lög. Það var búið að segja okkur að samhæfing yrði vandamál en þarna spilaði hann flott lög á píanóið.“

„Þetta er skýringin á því að drengurinn er á lífi“

Sigurður er ákaflega þakklátur starfsfólki spítalans og lýsir því þakklæti vel í samtali við blaðamann. „Ég er bara agndofa yfir færninni, metnaðinum, kraftinum í þessu fólki, læknunum, hjúkrunarfræðingunum og sjúkraliðunum. Þetta fólk hefur haldið manni bara á floti, ekki bara hugsað um sjúklinginn heldur okkur foreldrana líka,“ segir hann.

„Hafi ég einhvern tímann sagt eitthvað miður gott um þessa sérfræðinga okkar á spítölunum, hjúkrunarfræðingana og læknana, þá tek ég það allt til baka. Ég er algjörlega agndofa og eiginlega orðlaus.“

Þá segist Sigurður einnig vera þakklátur þeim sem sendu stuðning á þessum erfiðu tímum. „Þau bæði stöppuðu í mig stálinu og sendu kraftmikla og hlýja strauma. Ég held að þetta í samblandi við þetta frábæra starfsfólk á spítalanum – þetta er skýringin á því að drengurinn er á lífi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Sauð upp úr fyrir brottför á Keflavíkurflugvelli – Systkini helltu sér yfir áhöfnina

Sauð upp úr fyrir brottför á Keflavíkurflugvelli – Systkini helltu sér yfir áhöfnina
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Íslensk kona búsett í Noregi ákærð fyrir kókaínakstur á Norðurlandi

Íslensk kona búsett í Noregi ákærð fyrir kókaínakstur á Norðurlandi
Fréttir
Í gær

Dánarorsök hunds Hackman hjónanna opinberuð – Tveir aðrir hundar lifðu af

Dánarorsök hunds Hackman hjónanna opinberuð – Tveir aðrir hundar lifðu af
Fréttir
Í gær

Skagafjörður í mál við „týnd félög“ vegna félagsheimilis

Skagafjörður í mál við „týnd félög“ vegna félagsheimilis
Fréttir
Í gær

Varar Trump við – „Mistök af svakalegri stærðargráðu“

Varar Trump við – „Mistök af svakalegri stærðargráðu“
Fréttir
Í gær

„Kvittana-veggur“ Musk átti að dásama afrek hans – Nú hverfa kvittanirnar ein af annarri

„Kvittana-veggur“ Musk átti að dásama afrek hans – Nú hverfa kvittanirnar ein af annarri