Pútín hefur ekki oft sést í lúxusfríi í útlöndum og opinber laun hans svara til um 18 milljóna íslenskra króna á ári. Samkvæmt opinberum skráningum á hann nokkra gamla bíla og litla íbúð. En þrátt fyrir þetta er talið að hann sé einn ríkasti maður heims og hafa sumir skotið á að auðæfi hans nemi um 200 milljörðum dollara. LA Times og CNN skýra frá þessu og segja að þetta sé það mat sem heimildarmenn hafi lagt á auðæfi Pútín.
Einn þeirra er bandaríski fjárfestirinn Bill Browder en hann er harður gagnrýnandi Pútín. „Verðmæta úrasafns Pútín er á við margföld árslaun hans,“ sagði hann í samtali við CNN 2018.
En það er ekki nóg með að Pútín eigi verðmætt úrasafn, hann á einnig lúxussnekkju að verðmæti sem svarar til um 14 milljarða íslenskra króna og því hefur einnig verið haldið fram að hann eigi risastóra höll við Svartahaf, hún hefur verið nefnd Höll Pútín. Opinberlega eru hvorki snekkjan né höllin í hans eigu en vinur hans, hinn stórefnaði olígarki Arkady Rotenberg, segist eiga snekkjuna og höllina.
En það er erfitt að öðlast heildaryfirsýn yfir eigur Pútín því hann er ekki aðeins slyngur stjórnmálamaður, hann er einnig góður í að halda upplýsingum um einkalíf sitt og eigur frá almenningi og fjölmiðlum.
Hann er talinn hafa leynt auðæfum sínum með aðstoð olígarkanna sem hafa auðgast gríðarlega í skjóli hans. Til þess eru gervifyrirtæki notuð og leppar og auðvitað skattaskjól víða um heim.
En þvert á það sem einkennir lífsstíl vina hans olígarkanna þá er Pútín ekki þekktur fyrir að lifa einhverju áberandi lúxuslífi. Sumir segja að lífsstíll hans sé kannski ekki eins áberandi og lífsstíll olígarkanna en ekki síður kostnaðarsamur.
Pútín var tengdur við kaup á einbýlishúsi í Mónakó í Panamaskjölunum svokölluðu. Hann er sagður hafa greitt sem svarar til rúmlega 600 milljóna íslenskra króna fyrir húsið sem var ætlað þáverandi ástkonu hans, Svetlana Krivongikh, sem hann er sagður hafa eignast barn með.
Ein eins og með margt annað þá voru leppar notaðir í tengslum við kaupin á húsinu svo nafn Pútín tengdist kaupunum ekki beint.
Einn af vinum Pútín er Roman Abramovichs, sem er enn eigandi enska knattspyrnuliðsins Chelsea, en eigur hans eru taldar nema 83 milljörðum dollara. Pútín er því miklu ríkari.
En bent hefur verið á að það skipti svo sem ekki öllu máli hversu mikið Pútín á, völd hans séu þannig að hann geti einfaldlega skrifað undir eina forsetatilskipun og þannig svipt olígarka á borð við Abramovich auði sínum. Af þeim sökum tipli olígarkarnir á tánum í kringum hann og séu tregir til að gagnrýna hann og stríðsreksturinn í Úkraínu.