Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fer hörðum orðum um meint aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar vegna gríðarlegra verðhækkanna á hrávörumarkaði sem er bein afleiðing stríðsins í Úkraínu. Í aðsendri grein sem birtist á Vísi seinnipartinn í dag bendir Kristrún á að stjórnvöld í Svíþjóð, Noregi, Bretlandi, Frakklandi og fleiri Evrópuþjóðum hafi þegar tilkynnt aðgerðir vegna hamfaranna. Lítið bóli þó á aðgerðum ríkisstjórnar Íslands.
„Ég fæ déjà vu – sama staðan er nú komin upp og fyrir 2 árum síðan þar sem öll nágrannalönd okkar kynntu hratt og örugglega mótvægisaðgerðir vegna COVID en hér var fólki og minni fyrirtækjum beint í skuldsetningu, fyrirtækjum borgað fyrir að segja fólki upp og alvöru aðgerðir komu ekki fram fyrr en mörgum mánuðum of seint. Í millitíðinni byggðist upp gríðarlegt ójafnvægi í kerfinu. Ójafnvægi sem almenningur líður fyrir í dag í formi gríðarlegra húsnæðisverðshækkana, þar sem fjármagni var dreift með mjög ómarkvissum hætti í gegnum bankakerfið. Allt gert til að fría sig pólitískri ábyrgð á ákvörðunum og afleiðingum,“ skrifar Kristrún.
Hér á landi stefni allt í sömu átt en viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafi verið fáleg. Þannig hafi tillögur Samfylkingarinnar ekki náð fram að ganga og nú líði hver vikan á eftir annarri þar sem verðbólguþrýstingur eykst.
„Þetta er ekkert annað en pólitísk ákvarðanafælni, pólitískur verkkvíði. Sem bitnar á almenningi í landinu. Hið kaldhæðnislega er að þetta mun líka bitna á ríkissjóði þegar líður á árið ef hér fer af stað víxlverkun launa- og verðlags því ríkisstjórnin skilur ekki hvaða hlutverki ríkissjóður hefur að gegna í velferðarsamfélagi. Skilur ekki mikilvægi þess að fara í sértækar aðgerðir til að draga úr þrýstingi og þenslu síðar meir. Ef ekkert er að gert, verða afleiðingar þessa aðgerðarleysis þær sömu og fyrir 2 árum síðan: aukið ójafnvægi í efnahagslífinu, aukinn verðbólguþrýstingur og aukinn kostnaður ríkissjóðs fyrir vikið,“ skrifar Kristrún.