Fyrrverandi skólabílstjóri í Dalabyggð vann í gær sigur í Landsrétti í skaðabótamáli gegn sveitarfélaginu. Tilmæli sveitarstjórnar til vinnuveitanda mannsins, þess efnis að hann myndi ekki annast skólaakstur fyrir sveitarfélagið, urðu til þess að honum var sagt upp störfum hjá verktakanum sem hafði samning við sveitarfélagið um aksturinn.
Forsaga málsins er sú að kona sem situr í sveitarstjórn Dalabyggðar kærði manninn fyrir kynferðislega áreitni gegn dóttur hennar árið 2012. Var hann sakaður um að hafa snert stúlkuna ósæmilega og talað kynferðislega til hennar. Það var niðurstaða lögreglu að ekki hefði átt sér stað kynferðisleg áreitni. Sú ákvörðun lögreglu var kærð til ríkissaksóknara sem komst að sömu niðurstöðu.
Maðurinn stefndi Dalabyggð meðal annars á þeim forsendum að hann hafði ekki haft andmælarétt varðandi ávirðingar um kynferðislega áreitni og að móðir stúlkunnar sem í hlut átti hefði ekki vikið sæti á fundum sveitarstjórnar þar sem samþykkt var að óska þess að maðurinn kæmi ekki að skólaakstri í sveitarfélaginu.
Maðurinn tapaði skaðabótamálinu gegn Dalabyggð í Héraðsdómi í janúar árið 2021, meðal annars á þeim forsendum að rétt hafi verið af hálfu sveitarstjórnar að láta skólabörn í sveitarfélaginu njóta vafans.
Landsréttur sneri þessum dómi algjörlega við á föstudag og þar er meðal annars vísað til ákvæða stjórnsýslulaga þess efnis að tryggja beri að mál sé nægjanlega upplýst áður en tekin sé ákvörðun í því. Engin gögn hafi legið fyrir á fundinum þar sem ákveðið var að afþakka vinnuframlag mannsins, aðeins hafi verið byggt á sögusögnum. Manninum hafi ennfremur ekki verið gefið færi á að koma andmælum og athugasemdum á framfæri.
Var Dalabyggð dæmd til að greiða manninum 800 þúsund krónur með dráttarvöxtum. Jafnframt er viðurkennt að sveitarfélagið beri skaðabótaábyrgð á tjóni mannsins vegna tekjumissis sem stafi af þeirri ákvörðun sveitarstjórnar að hafna honum sem skólabílstjóra.
Dóma Landsréttar og héraðsdóms í málinu mál lesa hér
„Ég kalla þetta heykvíslarstjórnsýslu. Þetta er í raun sagan af því þegar fjöður verður að fimm hænum,“ segir Skúli Sveinsson, lögmaður mannsins.
„Málið veitir innsýn í stjórnsýslu í fámenni og misnotkun á valdi í slíkum aðstæðum. Og hvernig skuggastjórnsýslu getur verið beitt. Þetta er sveitarkróníka sem gæti allt eins verið tekið úr bók frá Guðrúnu frá Lundi,“ segir Skúli ennfremur og bendir á að ríkissaksóknari hafi hreinsað manninn af öllum ávirðingum:
„Sú kæra sem lögð var fram á hendur umbjóðanda mínum fyrir mörgun árum var felld niður og sú niðurfelling staðfest af ríkissaksóknara með þeim rökstuðningi að umrædd háttsemi væri einfaldlega ekki kynferðisleg áreiti né brot á barnalögum yfir höfuð. Kærumálið átti sér aðdraganda vegna vanlíðan umræddrar stúlku, sem átti sér þó forsögu, en var tengd við samskipti hennar við umbjóðanda minn, sem var gerður að blóraböggli.“
Segir Skúli að ákvörðun sveitarstjórnar í málinu hafi algjörlega verið byggð á sögusögnum: „Fyrir dómi þá var viðurkennt af hálfu Dalabyggðar að sveitastjórnarmenn, skólastjóri og aðrir sem að málinu komu vissu ekkert um málsatvik í raun. Og að ákvörðun sveitastjórnar hafi alfarið verið byggð á sögusögnum, málið hafi ekkert verið rannasakað, engra gagna aflað.“
Skúli segir að erfitt sé að bera af sér ásakanir sem þessar og í skjóli þeirra geti misnotkun valds þrifis:
„Þetta mál allt hefur farið úr böndunum vegna þess að þegar svona ásakanir koma fram þá er mönnum hvorki ætlað né er þeim í raun gerlegt að bera hönd fyrir höfuð sér. Það býður upp á misnotkun á valdi, en til þess eru einmitt stjórnsýslureglur sem Landsréttur hefur nú kveðið upp niðurstöðu um að hafi verið þverbrotnar.“