Þetta er mat Althea Spinozzi, sérfræðings hjá Saxo Bank. Finans.dk skýrir frá þessu. Fram kemur að Rússar eigi að greiða vexti af lánum, sem voru tekin í evrum og dollurum, í næstu viku. Ef þeir greiði þá með rúblum þá svari það til þess að um greiðslufall hafi verið að ræða en tæknilega séð má líkja því við þjóðargjaldþrot þar sem ríkissjóður getur ekki staðið við erlendar skuldbindingar sínar.
Ástæðan fyrir þessu er að Pútín skrifaði í síðustu viku undir tilskipun um að greiða eigi lánveitendum frá „óvinveittum ríkjum“, þeirra á meðal eru Bandaríkin, Bretland og ESB-ríkin, afborganir í rúblum í stað þess gjaldmiðils sem lánin voru veitt í.
Í greiningu Spinozzi kemur fram að ef þessu verði fylgt þá muni Rússar ekki standa við skuldbindingar sínar hvað varðar afborganir af skuldabréfum í næstu viku en þann 16. eiga þeir að greiða af skuldabréfum sem voru gefin út í dollurum og evrum.
Frá því að innrásin í Úkraínu hófst og Vesturlönd gripu til refsiaðgerða gegn Rússlandi hefur lánshæfismat ríkissjóðs lækkað verulega og eru Rússar nú í C-flokki sem er lægsti flokkurinn. Veruleg hætta er talin á að ríki sem eru í C-flokki greiði ekki af lánum sínum.