Hér er yfirlit yfir helstu fréttir næturinnar og verða nýjar fréttir settar inn um leið og þær berast.
Uppfært klukkan 06.13 – Í nýrri stöðuskýrslu breska varnarmálaráðuneytisins kemur fram að líklega séu Rússar að endurskipuleggja hersveitir sínar og safna liði nærri Kyiv. Líklega geri þeir árás á borgina á næstu sólarhringum.
Uppfært klukkan 06.00 – Öflug sprenging varð í Lutsk í nótt en bærinn er um 100 km frá pólsku landamærunum.
Video of a large explosion in Lutsk. https://t.co/mTwZe59qzd pic.twitter.com/LbtXSbnOt5
— Rob Lee (@RALee85) March 11, 2022
Uppfært klukkan 05.35 – Volodymyr Zelenskyy, forseti, sagði fyrir stundu að sprengingar hafi orðið í borginni Dnipro sem er suðaustan við Kyiv.
Uppfært klukkan 05.11 – Hugveitan Institute for the Study of War hefur birt nýtt kort sem sýnir þau svæði sem Rússar hafa á valdi sínu. Þau eru sýnd með rauðum lit. Það að Rússar hafi svæði á valdi sínu þýðir ekki endilega að þar séu ekki úkraínskar hersveitir en Rússar ráða lögum og lofum.
Uppfært klukkan 04.27 – Úkraínski herinn hefur birt stöðuskýrslu dagsins. Í henni kemur fram að rússneskar hersveitir virðist vera að endurskipuleggja sig og verða sér úti um vistir. Það hefur hægt á sókn Rússa og sumar hersveitir hafa hörfað aftur inn á rússnesk yfirráðasvæði. Veðrið er með Úkraínumönnum við Svartahaf og Azov og hefur neytt Rússa til að snúa aftur til flotastöðva og bækistöðva sinna.
Uppfært klukkan 04.11 – ESB vill styrkja tengslin við Úkraínu en hafnar beiðni Úkraínu um skjóta aðild að sambandinu. Þetta er sá boðskapur sem felst í sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoga ESB-ríkjanna sem funduðu fram á nótt í París. Í henni kemur fram að leiðtogarnir hafi ósk Volodymyr Zelenskyy, forseta, um skjóta aðild að ESB en að ESB vilji styrkja böndin og samstarfið við Úkraínu á meðan landið heldur áfram eftir hinum „evrópska vegi“.
Uppfært klukkan 03.56 – Nýjar gervihnattamyndir frá Maxar Technologies sýna að Rússar eru með mikinn liðsafnað nærri Kyiv. Hersveitir þeirra hafa komið sér fyrir í þorpum og skógum nærri höfuðborginni og verið er að koma stórskotaliði fyrir.
Uppfært klukkan 03.41 – Meta, fyrirtækið sem á Facebook og Instagram, hefur breytt reglum sínum í nokkrum löndum á þann veg að það brýtur ekki lengur gegn þeim að viðhafa hatursræðu um Rússa eða hvetja til ofbeldis gegn rússneskum hermönnum. Þetta kemur fram í tölvupóstum frá Meta sem Reuters hefur séð. Til dæmi er ekki lengur bannað að skrifa „dauða yfir rússneska hernámsliðinu“ á samfélagsmiðlana. Ekki verður þó liðið að hvatt sé til ofbeldis gagnvart óbreyttum rússneskum borgurum. Ákveðnar færslur sem hvetja til dráps á Vladímír Pútín, Rússlandsforseta, og starfsbróður hans og vini, Alexander Lukasjenko forseta Hvíta-Rússlands, verða leyfðar. Þessi breyting á reglum á við í Aremníu, Eistlandi, Georgíu, Ungverjalandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi, Rúmeníu, Rússlandi, Úkraínu og Slóvakíu.
Uppfært klukkan 03.40 – Bandaríkjaþing hefur samþykkt efnahagsaðstoð við Úkraínu upp á 13,6 milljarða dollara.
Uppfært klukkan 03.39 – Orðrómur er á kreiki um að Joe Biden, Bandaríkjaforseti, muni tilkynna um nýjar refsiaðgerðir gegn Rússum í dag. Þær eru sagðar felast í því að slíta núverandi viðskiptasamningum við Rússland. Með því verður Bandaríkjamönnum heimilt að hækka tolla á rússneskar vörur.