Íbúar í nágrenni við gistiheimilið að Flókagötu 5 í Reykjavík eru löngu komnir með nóg af rusli sem endurtekið safnast upp á lóð gistiheimilisins og kalla eftir aðgerðum.
Í morgun var myndum af rusli við gistiheimilið deilt í Facebookhópi íbúa í Norðurmýri sem Flókagata tilheyrir og fékk DV leyfi til að birta myndirnar.
Þar kemur fram að í fyrradag hafi ruslapokar verið um alla lóðina en síðan hafi einhver safnað þeim saman í stærri poka og sett út á stétt.
„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta er svona fyrir utan þetta gistiheimili,“ segir einn í hópnum.
„Hryllingur – hvetjum eiganda til að sýna ábyrgð og koma þessu á Sorpu strax ! Okkar hverfi er ekki ruslahaugur,“ segir annar.
Nágrannar hafa endurtekið, yfir langt tímabil, kvartað undan rusli sem þarna safnast endurtekið saman og sent kvartanirnar til Reykjavíkurborgar, heilbrigðiseftirlitsins og lögreglunnar – en ekkert virðist bera árangur.
En þó að í þetta skiptið hafi ruslið verið í pokum eru eldri dæmi um að á lóðinni hafi verið gamalt klósett, gömul reiðhjól sem var búið að taka í sundur og matarleifar í engum umbúðum.
Einn íbúinn segist síðan hafa tekið eftir bæði rottum og mávum sem sæki í ruslið á lóðinni.
DV hefur sent heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur fyrirspurn vegna málsins og verða svörin birt þegar þau berast.
Þegar þessar línur eru ritaðar er búið að fjarlægja ruslapokana sem sjást á myndunum.