Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir Jóni Rúnari Péturssyni, sem haustið 2019 henti konu fram af svölum á íbúð á annarri hæð í blokk í Breiðholti, í tvö og hálft ár, en hann hafði fengið 21 mánuð í héraði.
Greint var frá málinu í dagbók lögreglu á sínum tíma en lögregla kom á vettvang og handtók Jón Rúnar. Var hann úrskurðaður í mánaðarlangt gæsluvarðhald. Hann var á skilorði er atvikið átti sér stað. Jón Rúnar er vélfræðingur að mennt og er 41 árs gamall.
Konan slasaðist alvarlega en í dómi héraðsdóms kom fram að hún hafi hlotið heilahristing, blæðingar og bólgur undir húð í andliti ásamt skurðum yfir kjálka vinstra megin, brot á tveimur stöðum í neðri kjálka, brot í kinnholu í efri kjálka, brotnar tennur og brot á mjaðmabeini.
Í dómnum er vísað í skýrslu sem tekin var af konunni, viku eftir að henni var hent fram af svölunum. „Hún kvaðst hafa verið í heimsókn hjá ákærða. Þau hefðu líklega verið eitthvað að rífast en allt í einu hafi ákærði hent henni fram af svölunum. Hafnaði hún því alfarið að hafa hoppað niður og kvaðst þess viss því þá hefði hún lent betur,“ segir í dómnum en Jón hafði haldið því fram að hún hafi hoppað sjálf fram af.
Þá kemur fram í dómnum að Jón hafi sagt í skýrslutöku að hann og konan hafi átt í ástarsambandi. Jón Rúnar vildi meina að hún hefði ráðist á hann með hníf eða barefli eftir að hann sagðist vilja slíta sambandinu. Konan sagði sjálf í skýrslutöku að hennar minning um málið væri ekki eins, hún sagðist ekki muna eftir því að hafa ráðist á hann.
Sem fyrr segir þyngir Landsréttur dóm yfir Jóni Rúnari upp í tvö og hálft ár. Þá er hann dæmdur til að greiða konunni rétt rúmar 2 milljónir króna í miska- og skaðabætur.
Dóma Landsréttar og héraðsdóms má lesa hér