Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að ASÍ, FBÍ, Neytendasamtökin og fleiri félög krefjist þess að ríkisstjórnin lækki skatta á bensín tímabundið eða beiti sér á annan hátt til að létta byrðar almennings.
Verð á bensíni er nú í sögulegu hámarki en í gær fór það vel yfir 300 krónur á lítra. Árið 2005 var verðið 115 krónur og 2017 var það 160 krónur. Á fimm árum hefur verðið næstum tvöfaldast.
Innrás Rússa í Úkraínu er meginskýringin á hækkununum að undanförnu. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að hækkanirnar bitni verst á þeim tekjulægstu sem hafi enga burði til að kaupa sér raf- eða metanbíla.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, vill að stjórnvöld grípi inn í því þetta sé kjararýrnun sem komi helst niður á þeim sem eru í verstu stöðunni.