Mikið hefur verið fjallað og rætt um kaup Eflingar á þjónustu Andra Sigurðssonar en Andri var fenginn til að gera nýja vefsíðu Eflingar og fékk rúmar 20 milljónir fyrir verkið.
Málið hefur vakið mikla athygli og hefur fólk furðað sig á því hvers vegna stéttarfélag greiði svo háar upphæðir fyrir verk sem þetta. Þá hefur fólk sérstaklega fordæmt Eflingu og Andra sökum tengsla þess síðarnefnda við toppana í Eflingu.
Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, gaf í dag út yfirlýsingu vegna málsins en yfirlýsinguna birti hann á Facebook-síðu sinni auk þess sem hann sendi hana út á fjölmiðla. Í yfirlýsingunni segir Viðar að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte, sem fer með endurskoðun ársreikninga Eflingar, hafi ekki gert neinar athugasemdir um kaupin á vinnuni við gerð vefsíðunnar.
Þá segir Viðar að Agnieszka Ewa Ziółkowska, fráfarandi formaður Eflingar, hafi beðið Deloitte um að kanna málið. Viðar sakar fráfarandi formanninn þá um að bera út róg um sig. „Um að ég sé ábyrgur fyrir einhvers konar fjármálamisferli í tengslum við viðskipti Eflingar við umrætt fyrirtæki í tíð minni sem framkvæmdastjóri félagsins. Gerði hún þetta á fundi trúnaðarráðs Eflingar þann 16. febrúar síðastliðinn að mér fjarstöddum,“ segir hann í yfirlýsingunni.
„Neitaði hún að veita lögmanni mínum skýringar eða gögn til stuðnings ummælum sínum þegar hann óskaði eftir því.“
Ég hef í dag fengið staðfest hjá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte, sem fer með endurskoðun ársreikninga hjá Eflingu – stéttarfélagi, að engar athugasemdir eru gerðar af hálfu Deloitte við viðskipti Eflingar við vefhönnunarfyrirtækið Sigur vefstofa sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðustu daga. Var Deloitte beðið um þessa athugun af hálfu fráfarandi formanns Eflingar.
Fráfarandi formaður, Agnieszka Ewa Ziółkowska, hefur borið út róg um að ég sé ábyrgur fyrir einhvers konar fjármálamisferli í tengslum við viðskipti Eflingar við umrætt fyrirtæki í tíð minni sem framkvæmdastjóri félagsins. Gerði hún þetta á fundi trúnaðarráðs Eflingar þann 16. febrúar síðastliðinn að mér fjarstöddum. Neitaði hún að veita lögmanni mínum skýringar eða gögn til stuðnings ummælum sínum þegar hann óskaði eftir því.
Ónafngreindir einstaklingar settu sig í kjölfarið í samband við fjölmiðla og létu hafa eftir sér ummæli til þess gerð að málinu yrði slegið upp með tortryggilegum hætti gagnvart mér og mínum störfum. Halldóra Sveinsdóttir, þriðji varaforseti ASÍ, hefur jafnframt í samtölum við fjölmiðla tekið undir með þessum órökstuddu ásökunum og talað um fjárdrátt og önnur ótilgreind lögbrot.
Eftir athugun Deloitte liggur fyrir að dylgjur fráfarandi formanns Eflingar og þriðja varaforseta ASÍ eru með öllu tilhæfulausar.
Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar – stéttarfélags