fbpx
Fimmtudagur 13.febrúar 2025
Fréttir

Úlfúð í Garðabænum – „Ég kann því illa að makinn minn sé eitthvað sérstaklega málaður með pólitískan kollhnís“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 10. mars 2022 11:58

Guðfinnur Sigurvinsson og Guðlaugur Kristmundsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vatnselgurinn sem skapaðist víða á höfuðborgarsvæðinu í fyrradag hafði alvarlegar afleiðingar á ýmsum stöðum þar sem hreinlega flæddi upp úr fráveitukerfum.

Meðal annars safnaðist gríðarlegt vatn við nýtt knatthús í Garðabæ, Miðgarð, og höfðu margir áhyggjur af skemmdum – slíkt var flóðið. Garðabær hefur nú tilkynnt að engar skemmdir hafi orðið en miklar umræður sköpuðust um málið í umræðuhópi íbúa Garðabæjar á Facebook.

Þar deildi Andrés James Andrésson opinni færslu frá Ingvari Arnarsyni, bæjarfulltrúa Garðabæjarlistans og íþróttakennara, sem deildi áhyggjum sínum af mögulegum skemmdum sem og myndum af vatninu fyrir utan knatthúsið og því sem hafði flætt inn.

Á sandi byggði heimskur maður hús

Andrés undrast mjög á staðsetningu nýja knatthússins skrifar „Á sandi byggði heimskur maður hús“ og bætir við að það sé ekkert nýtt að þarna safnist vatn enda sé þetta neðsti hluti mýrarlands.

„Vill taka það fram að ég hef ekkert á móti þessu húsi … en að þetta hús hafi vera reist þarna mun ég aldrei skilja og ekki vill ég byrja að tjá mig að húsið “blockar” útsýni á einu suðurhlíðar lóðir sem eru eftir í GRB…..því hver vill ekki byggja sér hús í suðurhlíð og horfa á bakhlið íþróttahúss,“ skrifar Andrés.

Fjölmargir tjá sig um málið og falla þar setningar á borð við „Nýja útilaugin?“, „Æææjj þetta er hrikalegt“, „Furðuleg staðsetning,“ og „Staðsetning í mýri undir hlíð og ansi neðarlega í mýrinni. Hverju mátti búast við?“

Sjá einnig: Birtir myndband af því þegar það flæddi inn í höllina í Garðabæ – „Vonandi verða skemmdirnar ekki miklar“

Að hrella fólk á íbúasíðum

Guðfinnur Sigurvinsson, aðstoðarmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og 8. maður á lista flokksins í Garðabæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor, leggur einnig orð í belg en Miðgarður var reistur í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í bænum.

Guðfinnur virðist taka gagnrýni Andrésar sérstaklega nærri sér og segir að ef þetta væri rétt hjá honum væri engin byggð í Vatnsmýrinni í Reykjavík, vatnsflaumurinn hafi aðeins verið út af úrhelli á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir ennfremur:

„Þegar gatna- og veitukerfi verður komið í byggðinni sem þarna rís þá munum við vonandi ekki sjá svona vonda uppákomu aftur. Svo er rétt að geta þess að upphafsmaður þessa innleggs er maki næstefsta frambjóðanda Viðreisnar hér í bæ, flokks sem virðist hafa það sem markmið að nota íbúasíður í svona tilgangi. Fólk má hafa allar mögulegar skoðanir á húsinu en mér finnst það viss botn að nota mögulegar skemmdir og tjón af völdum veðurs sem eitthvað til að hrella fólk með.“

Eiginmaður Andrésar og annar maður á lista Viðreisnar í Garðabæ er Guðlaugur Kristmundsson sem svaraði Guðfinni:

„Ég veit að það eru ókunn lönd fyrir fólk í þínum flokki að vera ósammála innan fjölskyldu í pólitík. Að þessu gefnu mætti gefa sér að fólk erfi pólitískar skoðanir sínar frá foreldrum og dytti ekki til hugar að vera ósammála maka sínum, eða hvað?

Ég kann því illa að makinn minn sé eitthvað sérstaklega málaður með pólitískan kollhnís með þessu innleggi sínu á íbúasíðunni. Ég sé ekki betur en að hann deili efni frá kjörnum bæjarfulltrúa um málið og deili svo á okkur sem samfélag. Ætlar þú að múlbinda fólk til að tjá sig hérna af þeirri einu ástæðu að það erfði ekki vissa stjórnmálaskoðun í vöggugjöf?

En svo ég noti nokkur orð úr þínum eigin skrifum. Vonandi má fólk hafa allar mögulegar skoðanir og við getum haldið áfram að ræða það hér án þess að hjóla í manninn? Vonandi. Það þarf kannski að dæla í burt fyrst.“

Ekki einn um þessa skoðun

Guðfinnur svarar þessu sem svo:

„Ingvar hafði ekki sömu orð um málið og hafði eðlilegar áhyggjur af því eins og við öll gerðum í gær. Innleggið hér að ofan dæmir sig sjálft og víst eru ólíkar skoðanir innan fjölskyldna en hagsmunir hjóna eru samtvinnaðir og skoðast í því ljósi, enda ekki beinlínis eins og innleggið gefi annað til kynna. Að koma því inn hjá fólki að nýbyggt húsið sé eins og sökkvandi skip af því að það er byggt í mýri er aðeins of mikið af því góða fyrir minn smekk og mér finnst tilgangurinn annarlegur, segi það bara hreint út. Ef lögmálið væri þetta þá væru höfuðstöðvar Decode marrandi í hálfu kafi í Vatnsmýri, og öll hús sem standa við götur sem enda á heitinu -mýri löngu horfin. Borgin ekki svipur hjá sjón. Það myndi auðvitað engin verkfræðistofa leggja nafn sitt við annað eins.“

Og Andrés er heldur ekki sáttur:

„Guðfinnur Sigurvinsson, ég tek ekki þátt í þessari umræðu út frá hvað þér finnst út frá pólitík,það kemur þessu bara ekki við og ég ber meiri virðingu fyrir pólitík og fólki en það,en takk fyrir að koma fram með þína hlið á þessu máli og þar sem þú kannt að lesa þá kannski lestu yfir hvað fólk hefur að segja um þetta,eða eru þau líka öll makar einhvers í pólitík…“

Hér má síðan sjá færslu Ingvars með myndum og myndbandi af vatninu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt