Þetta kom nýlega fram í Daily Mail. Í fyrradag kom William Burns, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, fyrir bandaríska þingnefnd og þar sagði hann að samkvæmt hernaðarkenningum Rússa sé gert ráð fyrir notkun lítilla kjarnorkusprengja á vígvellinum. Mirror skýrir frá þessu.
Fram kemur að Burns hafi sagt að samkvæmt rússneskum hernaðarkenningum sé gert ráð fyrir að átök séu stigmögnuð til að úr þeim dragi og því telji hann hættu á að líkurnar á beitingu kjarnorkuvopna aukist ef miðað er við rússnesku hernaðarkenningarnar.
Fyrrum embættismaður í Hvíta húsinu, sem þekkir vel til kjarnorkuvopnamála Rússa, sagði í samtali við Defense One að hætta á að Rússar beiti kjarnorkuvopnum fari vaxandi. Sérstaklega í því ljósi að Pútín hafi ekki sömu viðhorf til slíkra vopna og Bandaríkin eða ráðamenn í fyrrum Sovétríkjunum. Hann sagði að Pútín líti á kjarnorkuvopn sem „stríðstól“ og að Rússar eigi slík vopn sem eru hluti af áætlunum þeirra um stríðsrekstur á meðan Bandaríkin eigi slík vopn til að koma í veg fyrir stríð.
Hann sagði að hættan á beitingu kjarnorkuvopna fari vaxandi „sérstaklega af því að stríðsreksturinn í Úkraínu gengur illa“.