Þetta sagði Hans Peter Michaelsen, varnarmálasérfræðingur, í samtali við Jótlandspóstinn. „Við erum nú komin á það afgerandi stig þar sem það kemur í ljós hvort Úkraína geti haldið áfram að verjast eða hvort kraftana þrjóti. Við heyrum nú þegar að það skorti matvæli í verslanir og á hverjum degi eru almennir borgarar drepnir. Spurningin er því hvort þeir muni gefast upp,“ sagði hann.
Hann sagðist telja að á næstu dögum og vikum fáist svar við hvert stefni og að fyrir mánaðamót liggi fyrir hver sigri í stríðinu: „Það er tvennt sem getur gerst. Annað hvort gefast Úkraínumenn upp af því að þeir verða uppiskroppa með vistir og skotfæri. Eða þá að það verða svo mörg vandamál innanlands í Rússlandi að almenningur áttar sig á þeim hryllingi sem þetta stríð er og því neyðist Pútín til að draga hersveitirnar út úr Úkraínu eða stíga sjálfur til hliðar.“
Hann sagðist þó telja ólíklegt að Pútín muni víkja úr embætti og þá skipti engu þótt almenningur mótmæli kröftuglega. Það þurfi mikið til að komast inn í Kreml til að hreyfa við Pútín og hans fólki.
Hann sagði margt benda til að Rússland sigri í stríðinu en ekki megi gleyma miklum vilja Úkraínumanna til að verjast og að þeim hafi tekist að valda Rússum gríðarlega miklu tjóni, það hafi komið á óvart.