Erlendur maður með íslenska kennitölu, fæddur árið 1985, hefur verið sakfelldur fyrir stórfellda ræktun og sölu á kannabis auk peningaþvættis. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. mars.
Var hann sakaður um að hafa haft í fórum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, vel á áttunda kíló af kannabis, 2,5 kg af kannabislaufum, yfir 400 kannabisplöntur og fleira.
Fundust efnin annars vegar í íbúðum í Reykjavík og hins vegar í iðnaðarhúsi í Hafnarfirði.
Maðurinn var einnig ákærður fyrir peningaþvætti því rannsókn á fjárreiðum hans leiddi í ljós óútskýrðar tekjur upp á rúmlega 23 milljónir á árunum frá 2019 til 2021.
Maðurinn játaði öll brotin undanbragðalaust en hann hefur ekki fengið dóm áður. Var hann dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi, látinn sæta upptöku á efnum og ýmsum tækjum, sem og upptöku á peningum upp á tæplega þrjár milljónir. Þá þarf hann að greiða um tvær og hálfa milljón í málskostnað.