Það var morgun einn árið 2019 að kona hugðist fara í hóptíma í líkamsræktarstöð. Á leið sinni upp á efri hæð líkamsræktarstöðvarinnar féll konan í stiganum þannig að hún hitti ekki á tröppuna sem hún ætlaði að stíga í og féll á tröppuna fyrir ofan. Við fallið fékk hún högg á vinstra læri og leitaði hún aðhlynningar á bráðamóttöku.
Í texta dómsins segir um meiðslin:
„Skoðun læknis leiddi í ljós bólgu og mar um 5 cm fyrir ofan hnéskel og að ekki væri að sjá að vöðvar eða festur hefðu farið í sundur. Spenna væri eðlileg, hreyfigeta óskert og líklega væri um að ræða blæðingu inn í vöðva. Fólst meðferð læknis að mestu í verkjastillingu. Í málinu liggja fyrir myndir af
áverkanum sem sýna stórt mar á vinstri fæti stefnanda sem nær allt frá ofanverðu læri og samfellt niður á neðanverðan kálfa.
Í læknisvottorði Heilsugæslunnar Y kemur fram eftirfarandi sjúkrasaga stefnanda hvað slysið varðar: Þann […] 2020 leitaði stefnandi til heilsugæslunnar vegna afleiðinga slyssins þar sem enn væru miklir verkir í fætinum. Lýst var að gróp væri á lærvöðva og í framhaldi af ómskoðun lagði læknirinn B til að fram færi segulómskoðun á fætinum til nánari greiningar. Niðurstöður segulómskoðunar lágu fyrir þann […] 2020 og voru þær að sjáanlegt væri mar á lærinu í fituvefnum undir húð en um minni háttar bólgu eða örvef væri að ræða. Engin merki væru um rof í vöðvanum og ekki væri að sjá nein áverkamerki annars staðar. Þann […] 2020 skoðaði C taugalæknir einnig stefnanda og taldi hann að hún hefði hlotið taugaskaða, líklegast viðvarandi, sem ylli verkjum, ofurnæmi og rýrnun á aðlægum vöðva. Í málinu liggur fyrir matsgerð D bæklunarskurðlæknis, dags. […] 2021. Helstu niðurstöður hans voru að tímabundinn missir starfsorku stefnanda teldist vera 10 dagar frá slysi og varanleg læknisfræðileg örorka teldist vera 5%. Fyrst hefði verið tímabært að meta afleiðingar slyssins einu ári eftir að það átti sér stað.“
Konan taldi slysið hafa stafað af ónógri lýsingu í stiganum auk þess sem tröppurnar hafi verið svartar. Taldi hún ónógan viðbúnað af hálfu líkamsræktarstöðvarinnar hafa valdið slysinu. Taldi hún sig því eiga rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu eigenda líkamsræktarstöðvarinnar. Þeir höfnuðu því og sögðu atvikið hafa verið óhappatilvik sem ekki væri hægt að rekja til saknæmrar vanrækslu.
Dómarar við héraðsdóm fóru á vettvang snemma morguns og könnuðu aðstæður álíkamsræktarstöðinni. Var það niðurstaða þeirra að aðbúnaður væri ófullnægjandi, stiginn of dimmur og slysahætta til staðar sem líkamsræktarstöðin bæri ábyrgð á.
Var viðurkennd skaðabótaskylda TM trygginga hf, tryggjanda stöðvarinnar, til konunnar. Ennfremur þarf stöðin að greina konunni rétt tæpa tvær milljónir króna í málskostnað.