Viaplay hefur endurnýjað samning sinn við Kristján Einar og Braga Þórðar, Formúlu 1 lýsendur, fyrir keppnistímabilið 2022. Þeir munu því verða áfram með ítarlega umfjöllun um allt sem tengist Formúlu 1 á Viaplay á komandi keppnistímabili.
Kristján Einar þarf ekki að kynna fyrir Formúlu 1 áhugafólki. Hann er fyrrum atvinnumaður í akstursíþróttum og hefur sinnt útsendingum frá Formúlu 1 á síðustu árum. Hann og Bragi hafa undanfarin ár stýrt hlaðvarpsþættinum Pittinum, sem hefur notið gríðarlegra vinsælda frá því hann fór í loftið. Enda eru þeir félagar ekki aðeins sérfræðingar um Formúlu 1 heldur eldheitir aðdáendur sem leyfa ástríðunni að skína í gegn í allri umfjöllun.
„Fyrst og fremst fögnum við vaxandi áhuga, aukinni umfjöllun og góðu aðgengi að Formúlu 1 og allt sem henni tengist á Íslandi. Síðasta tímabil og fyrstu æfingar í ár gefa góð fyrirheit um jafna og spennandi keppni á næsta tímabili. Reglubreytignarnar lofa góðu og við hlökkum til að færa Íslendingum Formúlu 1 útsendingar í hæsta gæðaflokki, á íslensku,“ er haft eftir Kristjáni Einari í fréttatilkynningu.
„Það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með vexti Formúlu 1 á Íslandi síðastliðin ár, enda frábær íþrótt sem á skilið þá auknu athygli sem hún hefur fengið hér á landi síðustu árin. Kristján Einar og Bragi eiga sinn þátt í því að hefja Formúlu 1 aftur til vegs og virðingar hér á Íslandi og það eru frábærar fréttir fyrir alla Formúlu 1 áhugamenn að þeir haldi áfram að fjalla um Formúlu 1 á Viaplay keppnistímabilið 2022. Að auki mun Viaplay halda áfram að þróa og uppfæra allt viðmót fyrir Formúlu 1 í öllum tækjum og mikið tilhlökkunarefni að kynna þær nýjungar á næstunni,“ segir Hjörvar Hafliðason, íþróttastjóri hjá Viaplay.
Kristján Einar og Bragi munu lýsa lokaæfingum fyrir keppnistímabilið í beinni útsendingu helgina 10.-12. mars, en það verður í fyrsta skipti sem æfingum fyrir tímabilið er lýst á Íslandi. Keppnistímabilið í Formúlu 1 2022 hefst síðan í Barein helgina 18.-20. mars.