En nú er komið fram að það er nú hægara sagt en gert. Eitt er að loka lofthelginni fyrir rússneskum farþegaflugvélum, annað er að loka henni fyrir einkaþotum olígarkanna.
Vandinn liggur í lélegri skráningu bandarískra yfirvalda á rússneskum olígörkum og eignum þeirra. Frá 2017 hefur þingið ítrekað reynt að knýja í gegn breytingar á skráningum flugvéla til að auka öryggi þeirra. En bandarísk flugmálayfirvöld hafa ekki verið hrifin af þessu að sögn Stephen F. Lynch, þingmanns Demókrata. Í samtali við Washington Post sagði hann að með núverandi skráningarkerfi muni yfirvöld aldrei uppgötva ef meðlimur í mexíkóskum fíkniefnahring skrái flugvél í Bandaríkjunum. Af sömu ástæðu sagðist hann efast um að aðgerðir Biden skili miklum árangri.
ESB hefur einnig lokað lofthelgi sinni fyrir rússneskum flugvélum en þar er svipað vandamál uppi á teningnum. Til að hægt sé að láta bannið ná yfir olígarkana þurfa yfirvöld að starfa miklu nánar saman en nú er gert.
Í hinum svokölluðu Panamaskjölum frá 2018 kemur fram að fjöldi rússneskra olígarka hafi árum saman svikið evrópsk skattyfirvöld um tugi milljarða með því að skrá flugvélar sínar í skattaskjólinu á Isle of Man. Í mörgum tilfellum var þetta gert með því að olígarkarnir leigðu vélarnar af sjálfum sér í gegnum huldufyrirtæki sem útilokað var að rekja slóðina eftir. Sömu aðferðum var beitt við lúxussnekkjur olígarkanna.