fbpx
Föstudagur 10.janúar 2025
Fréttir

Fíladelfía þvertekur fyrir að vera sértrúarsöfnuður – „Neikvætt og niðrandi“

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 9. mars 2022 14:04

Hús Fíladelfíukirkjunnar í Reykjavík. mynd/Einar Ólason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvít­a­sunn­u­kirkj­an Fíl­a­delf­í­a þvertekur fyrir það að vera sértrúarsöfnuður en kirkjan var sögð vera slík í þættinum Kompás á Vísi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Fíladelfíu sem birt var á Facebook-síðu kirkjunnar.

„Það var í senn hryggilegt og alvarlegt að heyra frásagnir þeirra sem stigu nýlega fram í fréttaskýringaþættinum Kompás á Stöð 2 og lýstu ofbeldi sem þau höfðu upplifað innan trúfélaga á árum áður. Slíkar sögur ber að taka alvarlega enda á ofbeldi sér margar myndir og getur birst hvar sem er. Trúfélög eru þar ekki undanskilin,“ segir í yfirlýsingu Fíladelfíu.

Fíladelfía segir að hún hafi verið knúin til að bregðast við umfjöllun Vísis. Í yfirlýsingunni segir að „af augljósum ástæðum“ sé það hvorki sanngjarnt né málefnalegt að setja trúfélag eins og Fíladelfíu undir sama hatt og Manson fjölskyldan, Heavens gate eða hryllingnum í Jonestown.  „Orðið sértrúarsöfnuður er meiðandi orð, enda er ekkert trúfélag sem lýsir sjálfu sér þannig. Orðið er neikvætt og niðrandi og er gjarnan notað til þess að gera trúfélög tortryggileg.“

Þá segir kirkjan að samkvæmt skilgreiningu Kompás á sértrúarsöfnuði sé Fíladelfía það ekki. „Skilgreining ,,sértrúarsafnaðar” samkvæmt Kompásþættinum var að það væri söfnuður sem teldi að hann einn hefði sannleikann og yrði hólpinn. Fíladelfía hefur aldrei kennt það, við erum kristin kirkja í samfélagi við kristnar kirkjur,“ segir í yfirlýsingunni.

Tekið er fram í yfirlýsingunni að hvorki söfnuðurinn né leiðtogar safnaðarins komi nálægt makavali meðlima. „Slík afskipti af frjálsum vilja einstaklinga eru með öllu óeðlileg.“

Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsinguna í heild sinni:

„Það var í senn hryggilegt og alvarlegt að heyra frásagnir þeirra sem stigu nýlega fram í fréttaskýringaþættinum Kompás á Stöð 2 og lýstu ofbeldi sem þau höfðu upplifað innan trúfélaga á árum áður. Slíkar sögur ber að taka alvarlega enda á ofbeldi sér margar myndir og getur birst hvar sem er. Trúfélög eru þar ekki undanskilin.

Það ber að virða að reynsla þeirra sem stíga fram og segja sögu sína á að vera aðalatriðið í slíkri umfjöllun. Aftur á móti var framsetning þáttarins þó þess eðlis að við henni er rétt að bregðast.

Af augljósum ástæðum er það er hvorki sanngjarnt né á nokkurn hátt málefnalegt að setja trúfélag eins og Fíladelfíu í flokk með Manson fjölskyldunni, Heavens gate eða hryllingnum í Jonestown.

Orðið sértrúarsöfnuður er meiðandi orð, enda er ekkert trúfélag sem lýsir sjálfu sér þannig. Orðið er neikvætt og niðrandi og er gjarnan notað til þess að gera trúfélög tortryggileg.

Skilgreining ,,sértrúarsafnaðar” samkvæmt kompásþættinum var að það væri söfnuður sem teldi að hann einn hefði sannleikann og yrði hólpinn. Fíladelfía hefur aldrei kennt það, við erum kristin kirkja í samfélagi við kristnar kirkjur.

Vegna þess að engin greinarmunur var gerður á trúfélögum í umfjölluninni er ágætt að árétta nokkur atriði sem komu fram þegar fjallað var um þá stjórnun og ofbeldi sem fólk hefur upplifað.

Fyrst ber að nefna að í Fíladelfíu kemur söfnuðurinn eða leiðtogar safnaðarins ekki nálægt makavali meðlima. Slík afskipti af frjálsum vilja einstaklinga eru með öllu óeðlileg. Þá er það rangt sem haldið var fram í þættinum að í kirkjunni væri „stranglega bannað að skilja”. Vissulega er það von okkar að sem flestir geti átt heilbrigð og hamingjusöm hjónabönd. Það er þó ekki alltaf raunin eins og meginþorri landsmanna hefur kynnst, hvort sem er af eigin raun eða annarra.

Það er ekkert launungarmál að söfnuðurinn er fjármagnaður með gjöfum meðlima að viðbættum sóknargjöldum. Hins vegar er ekki fylgst með því hverjir gefa til kirkjunnar og hverjir ekki.

Loks má taka fram að prestar Fíladelfíu eru ekki á nokkurn hátt einráðir um málefni og starfsemi kirkjunnar, boðskap hennar og þaðan af síður um málefni einstaklinga innan kirkjunnar. Þeir eru kjörnir til fjögurra ára í senn og yfir þeim ríkir lýðræðislega kjörin stjórn og öldungaráð, sem í sitja einstaklingar sem kjörnir eru til þriggja ára í senn. Allar kosningar eru leynilegar og fara fram á aðalfundum þar sem allir safnaðarmeðlimir hafa kosningarétt. Leiðtogar kirkjunnar eru þannig ábyrgir gagnvart aðalfundi, sem einnig þarf að samþykkja ársreikninga og velur endurskoðendur og skoðunarmenn.

Framsetning Kompáss, að hefja umfjöllun sína á öfgafullum dæmum um samfélög sem sum myrtu fólk eða frömdu hópsjálfsvíg, og í því samhengi fjalla um Fíladelfíu og önnur trúfélög, er í besta falli ámælisverð. Við höfnum öllum samanburði við slíka hópa.
Þvert á það sem sagt var í umfjölluninni könnumst við ekki við að nokkur tilraun hafi verið gerð til þess að hafa samband við Fíladelfíu og gefa okkur tækifæri til þess að tjá okkur.

Að lokum er rétt að taka fram að Hvítasunnukirkjan á sér yfir 100 ára sögu á Íslandi. Boðskap kirkjunnar má nálgast á heimasíðu hennar, í reglulegum útsendingum yfir netið og með öðrum hætti sem er öllum opin. Kirkjan er jafnframt öllum opin og öll starfsemi hennar fer fram með gegnsæjum hætti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja
Fréttir
Í gær

Fjórtán ára drengur stórslasaður eftir að hafa tekið upp flugeld – „Af hverju heldur fólk að einhverjir aðrir gangi frá?“

Fjórtán ára drengur stórslasaður eftir að hafa tekið upp flugeld – „Af hverju heldur fólk að einhverjir aðrir gangi frá?“
Fréttir
Í gær

Anna greindist með krabbamein og þurfti í bráðaaðgerð – „Meinið er búið að dreifa sér“

Anna greindist með krabbamein og þurfti í bráðaaðgerð – „Meinið er búið að dreifa sér“
Fréttir
Í gær

Þrýst á Sigurð Inga að axla ábyrgð eftir slakan árangur Framsóknarflokksins

Þrýst á Sigurð Inga að axla ábyrgð eftir slakan árangur Framsóknarflokksins
Fréttir
Í gær

Billy Crystal missti heimili sitt til 46 ára – Paris Hilton horfði á húsið sitt brenna

Billy Crystal missti heimili sitt til 46 ára – Paris Hilton horfði á húsið sitt brenna