Mirror segir að rússneskir hermenn hafi byrjað að „skjóta í allar áttir“ í kjölfar þess að úkraínskur piltur skaut upp loftið úr byssu. Þeir urðu Nastya að bana. Þeir vildu ekki leyfa móður hennar, Luba, að jarðsetja hana í kirkjugarði svo hún var grafin í garðinum við heimili sitt að sögn frænku hennar, Anya Stoluk.
The Times hefur eftir Vera Dmitrienko, stjúpmóður Nastya, að sögur hermi að hermönnunum hafi leiðst mikið: „Þeir stálu úr öllum verslununum og náðu sér auðvitað í mikið af áfengi . . . og urðu drukknir og byrjuðu að skjóta. Þeir skutu inn í hús Nastya, hún var þar með frænda sínum og hún lést samstundis. Frændi hennar var fluttur á sjúkrahús en við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um hann.“
Hún sagði að rússnesku hermennirnir hafi byrjað að skjóta eftir að úkraínskur unglingspiltur fann byssu og skaut upp í loftið: „Hermennirnir heyrðu þetta en af því að þeir voru svo drukknir vissu þeir ekki hvaðan skothvellurinn barst svo þeir byrjuðu bara að skjóta á allt sem þeir sáu. Þeir skutu á fjögur hús og í einu þeirra var Nastya.“
Mörg börn hafa beðið bana í stríðinu og fjöldi særst, þar á meðal litla stúlkan sem sést á myndinni hér fyrir neðan.