Í því ljósi má hugsanlega telja að ummæli Dmitrij Peskov, talsmanns Vladímír Pútín forseta, í gær um hvaða skilyrði Úkraínumenn þurfa að fallast á til að Rússar hætti hernaði vera til merkis um að Pútín hafi viðurkennt að honum muni ekki takast að leggja alla Úkraínu undir sig.
Þetta sagði Mikkel Vedby Rasmussen, einn fremsti hernaðarsérfræðingur Danmerkur, í samtali við B.T. Hann sagði að hugsanlega sé Pútín nú að leita að útgönguleið úr stríðinu.
Þau skilyrði sem Peskov nefndi í gær eru að Úkraína verður að viðurkenna að Krím sé hluti af Rússlandi. Einnig verður Úkraína að viðurkenna sjálfstæði Donetsk og Luhans í austurhluta landsins en héruðin hafa verið á valdi Rússa og aðskilnaðarsinna síðan 2014. Einnig verður að gera breytingar á stjórnarskrá landsins þannig að kveðið verði á um að Úkraína vilji ekki aðild að NATO og ESB og vilji vera hlutlaust ríki. Einnig segjast Rússar reiðubúnir til að leyfa Zelenskyy forseta að sitja áfram í embætti gegn því að þeir fái að tilnefna forsætisráðherra landsins.
Ólíklegt má teljast að Úkraína fallist á þessar kröfur en þær sýna að Pútín er reiðubúin til samninga að mati Rasmussen sem sagði að eina ástæðan fyrir því sé að rússneski herinn hafi ekki náð markmiðum sínum í Úkraínu.
Hann sagðist sannfærður um að stríðinu ljúki með samningum. Pútín geti ekki hertekið alla Úkraínu og leyst Úkraínu upp sem land. Til þess að það sé hægt verði Rússar að vera með mörg þúsund hermann í Úkraína að eilífu, það geti þeir ekki.
Hann sagði að Pútín verði að fá eitthvað með heim frá samningaborðinu en of snemmt sé að segja til um hvort það verði viðurkenning á að Krím sé hluti af Rússlandi eða sjálfstæði Donetsk og Luhansk: „Pútín neyðist til að finna lausn, sem Vesturlönd samþykkja, til að fá refsiaðgerðum aflétt. Það gæti hugsanlega verið þjóðaratkvæðagreiðsla um samband nokkurra héraða í austurhlutanum við Rússland. Pútín getur þá vonast til að hann hafi stjórn á atkvæðagreiðslunni.“